31.3.2009

Þriðjudagur, 31. 03. 09.

Sérnefnd um stjórnarskrármál kom saman til fundar í kvöld. Ég heyrði í fréttum í morgun, að ætlunin væri að ljúka störfum nefndarinnar í kvöld og taka málið úr nefnd, eins og sagt er, það er leggja það fyrir þingið til annarrar umræðu. Mér þótti merkilegt, að ég heyrði þetta sem nefndarmaður í útvarpsfréttum.  Ég áttaði mig síðan á því, að auðvitað væri þetta í samræmi við hin dæmalausu vinnubrögð í málinu frá upphafi, en málsmeðferðin hefur sætt mikill gagnrýni umsagnaraðila, enda er hún forkastanleg, þegar fjallað er um breytingu á stjórnarskránni.

Venja er, að leitað sé sátta meðal stjórnmálaflokka, áður en frumvarp um breytingu á stjórnarskránni er lagt fyrir þing. Á undirbúningsstigi málsins er tekist á um álitamál milli flokka og leitað samkomulags. Sú leið var ekki farin núna heldur mætti ætla, að það sé sérstakt markmið, einkum framsóknarmanna, að agnúast sérstaklega út í Sjálfstæðisflokkinn í tengslum við frumvarpið. Við sjálfstæðismenn leggjum til, að haldi menn fast í kröfuna um stjórnlagaþing, verði það ráðgefandi en stjórnarskrárvaldið sé ekki tekið af alþingi.

Stjórnarskrármálið var ekki tekið úr nefnd í kvöld enda engin efni til þess.

Síðdegis kynnti ríkisstjórnin frumvarp um hert gjaldeyrishöft, sem hún segir flutt til að stoppa upp í glufur. Við sjálfstæðismenn samþykktum afbrigði, svo að málið kæmist á dagskrá. Hafði það nokkurn aðdraganda og var þingfundi frestað hvað eftir annað, á meðan stjórnarliðið leitaði leiða til að málið fengi skjóta afgreiðslu. Yrði það ekki að lögum, myndi gjaldeyrismarkaði verða lokað á morgun.

Hér skal ekki gert lítið úr nauðsyn þess að loka glufum í gjaldeyrislöggjöfinni. Hitt er síðan staðreynd, að höft af hverjum toga, sem þau eru, kalla á meira eftirlit og strangari reglur og síðan eftirlitsstofnun. Ætli við sitjum ekki bráðlega uppi með gjaldeyriseftirlit að nýju?

Á bak við þessa hertu löggjöf býr því miður sú staðreynd, að ríkisstjórninni hefur mistekist að viðhalda því trausti í gjaldeyrismálum, sem þó hafði tekist að skapa. Hin nýja yfirstjórn seðlabankans ræður ekki heldur nægilega vel við þau mál á þessu sviði, sem undir hana falla.