26.3.2009 20:16

Fimmtudagur, 26. 03. 09

38. landsfundur Sjálfstæðisflokksins var settur klukkan 17.30 í Laugardalshöllinni og voru um 2000 manns við setninguna, en aldrei hafa fleiri verið skráðir til fundarsetu um 1900 manns.

Í upphafi fundar flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður flokksins, ávarp og kynnti mynd, sem sýndi brot úr 80 ára sögu flokksins.

Geir H. Haarde, formaður flokksins, flutti yfirgripsmikla setningarræðu, þar sem hann rakti þróun stjórnmála síðan 2007 og þó sérstaklega aðdraganda bankahrunsins og afleiðingar þess. Var ræðunni vel tekið af fundarmönnum, sem risu úr sætum og hylltu Geir með langvinnu lófataki.

Egill Helgason, aðildarsinni í Evrópumálum, fer mikinn vegna þess að gerð er tillaga um tvöfalda atkvæðagreiðslu vegna ESB-aðildar í drögum að ályktun Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál og segir þá leið aldrei hafa verið valda, en hún sé til marks um pólitískt hugleysi. Egill gefur sér, að enginn viti um hvað yrði kosið í fyrri atkvæðagreiðslunni. Þetta sannar mér aðeins, að Egill talar enn á ný um mál og myndar sér skoðun án þess að kynna málavöxtu. Auðvitað verður alþingi að hafa tekið ákvörðun um, að sótt skuli um aðild og komast að niðurstöðu um aðildarskilmála, áður en þeir eru lagðir fyrir þjóðina. Sérstaða Íslands er, að engin þjóð afsalar jafnmiklum auðlindum í yfirráð Brusselvaldsins með aðild að ESB og hin íslenska.

Klukkan 20.30 til 23.00 var rætt um Evrópumál í sérstökum starfshópi á landsfundinum undir formennsku þeirra Kristjáns Þórs Júlíussonar, alþingismanns, og Árna Sigfússonar, bæjarstjóra. Fjölmargar ræður voru fluttar og endurspegluðu þær þá meirihlutaskoðun meðal sjálfstæðismanna, að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu.