17.3.2009 9:39

Þriðjudagur, 17. 03. 09.

Annar fundur sérnefndar um breytingu á stjórnarskránni var haldinn klukkan 10.00 í morgun og þangað komu lögfróðir menn úr ýmsum áttum og gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum. Hér verða þau ekki rakin. Umræðurnar um frumvarpið fara óhjákvæmilega út og suður, því að í því er hrúgað saman ólíkum viðfangsefnum og áhugasvið viðmælanda mismunandi.

Á bloggsíðunum sýnist mér menn hafa mestan áhuga á stjórnlagaþinginu, eða því, sem Illugi Jökulsson nefnir „óháð Alþingi“ en nafngift af því tagi sýnir best út í hvaða ógöngur menn rata í þessum umræðum. Óháð Alþingi? Hvað er það? Halda menn, að engin stjórnmálaviðhorf komi við sögu, ef farið verður inn á þá braut að kjósa sérstakt stjórnlagaþing?

Hugmyndin í frumvarpsdrögunum er þannig, að búast má við mörg hundruð nöfnum á framboðslistum til þingsins. Hvergi er þess krafist, að þeir, sem bjóði sig fram séu óháðir, þótt þeir megi ekki sitja á alþingi heldur aðeins hinu „óháða Alþingi.“ Eru fyrrverandi þingmenn nægilega „óháðir“ til að geta boðið sig fram? Mega þeir ekki eins og aðrir safna nöfnum 50 einstaklinga á bakvið sig til að komast á framboðslistann? Hver er svo barnalegur að halda, að stjórnmálaflokkar hafi ekki afskipti af vali manna á stjórnlagaþing?

Grátbroslegt er að lesa yfirlýsingar um, að ekki megi ræða kostnað vegna stjórnlagaþings. Þegar fjármálaráðuneyti telur, að þingið kosti 1700 til 2100 milljónir króna, er skellt í góm og spurt: Hvað með það? Er unnt að verðleggja lýðræðið? Þannig var líka talað um útrásina á sínum tíma: Hvað, forsetinn, á hann ekki að leggja þeim lið, sem eru að auka auð og virðingu þjóðarinnar um heim allan? Heldurðu kannski, að hann eigi bara að sýna fornmuni í kjallara Bessastaða?

Svo segir Valgerður Sverrisdóttir, nefndarformaður, að sérnefndin eigi að snúa sér að því að lækka kostnað við stjórnlagaþingið, en nefndin er kjörin til ræða breytingar á stjórnarskránni, áður en stjórnlagaþingið kemur saman. Lög um stjórnlagaþingið verða ekki samþykkt fyrr en eftir kosningar samkvæmt frumvarpinu, sem Valgerður er að reyna að leiða til lykta.

Nú fá þingmenn hóp-tölvupóst um, þar sem krafist er, að ráðnir verði erlendir sérfræðingar til að leiða rannsókn á bankahruninu, að bankaleynd verði aflétt strax og að frumvarp um stórauknar heimildir rannsakenda verði lagt fram hið fyrsta, bæði svo hægt sé að hefja rannsóknina, og svo sjáist,  hvaða þingmenn vilja alvöru rannsókn og hverjir vilja enga rannsókn, þetta sé mikilvægt að vita fyrir kosningar.

 

Þegar ég les þessi bréf, velti ég fyrir mér, hvar þessir áhugamenn um rannsókn bankahrunsins hafa verið undanfarna vikur og mánuði. Hvort það sé svo í raun og veru, að þeir hafi fyrst nú áttað sig á nauðsyn þess, að skipulega sé staðið að rannsókn bankahrunsins, þeir viti ekki, að alþingi hefur samþykkt tvenn lög af þessu tilefni, það er um sérstakan saksóknara og sérstaka rannsóknarefnd. Í báðum tilvikum sé gert ráð fyrir rýmri rannsóknarheimildum en áður hafa þekkst hér og nú liggi fyrir frumvarp um að auka rannsóknarheimildir hins sérstaka saksóknara enn frekar. Engar lagaheimildir skortir til að ráða erlenda sérfræðinga og þegar hefur verið samið við Evu Joly um að hún veiti aðstoð (hún er að vísu að hefja kosningabaráttu í Frakklandi til að komast á Evrópusambandsþingið fyrir flokk græningja undir forystu Daniels Cohn-Bendits, sem varð frægur í stúdentaóeirðunum í París 1968, og hefur kannski takmarkaðan tíma sjálf) en hún hefur lofað að senda einn aðstoðarmanna sinna hingað.

Strax í október og nóvember á síðasta ári tók ég til við að ræða það, sem segir í þessu hóp-tölvubréfi, þótt ég teldi ekki unnt að fela útlendingi forystu í rannsókn þessara mála hér. Ég nefni til dæmis viðtal Kristófers Helgasonar á Bylgjunni við mig hinn 4. nóvember 2008, en þá sagði ég meðal annars:

„Já, rannsóknir eru farnar af stað á vegum Fjármálaeftirlitsins og Fjármálaeftirlitið starfar á grundvelli sinna laga og hvaða upplýsingaskyldu það hefur geta menn vafalaust kynnt sér í þeim lögum. Ég tel að það eigi að upplýsa meira en minna í þessu. Ég tel að það sé mjög æskilegt og hef verið málsvari þess í ræðum á undanförnum árum að Fjármálaeftirlitið og skattrannsóknarstjóri birtu meira opinberlega af sínum niðurstöðum og sínum skýrslum en þessar stofnanir hafa gert. Og ég tel í þessu ástandi sé það enn brýnna heldur en áður að spilin séu lögð á borðið og menn viti hverjir eru að rannsaka á vegum þessara stofnana og síðan líka hvað kemur út úr því. Nú síðan sjáum við, að það er líka verið að spyrja stjórnendur nýrra banka að því hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar varðandi einstaka starfsmenn gömlu bankanna og þetta þarf allt að leggja á borðið. Það er ógjörningur að menn geti teygt bankaleyndina svo langt að það sé ekki hægt að upplýsa þætti sem menn telja að þurfi að upplýsa. Því það er ekki heldur gott að þegja um eitthvað sem er betur sagt frá til þess að draga þá úr tortryggni og efla traust. Því að það að skjóta sér alltaf á bak við þagnarskyldu og leyndarhyggju er ekki gott í þessu ástandi.“