13.3.2009 17:24

Föstudagur, 13. 03. 09.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra boðaði til þingkosninga 25. apríl og rauf þing frá og með þeim degi og telur sig með því koma í veg fyrir, að lögmæti ákvarðana alþingis næstu daga sé dregið í efa.

Þegar stjórnarskránni var breytt 1991 og ákveðið, að þing sæti áfram þrátt fyrir þingrof, gerði nefndin, sem fjallaði um frumvarpið, ráð fyrir því, að eftir þingrof, það er boðun kosninga, ætti alþingi aðeins að fjalla um brýn úrlausnarefni, sem sátt væri um meðal þingmanna. Nú er skautað fram hjá vandanum vegna þingrofs með því að rjúfa ekki þing fyrr en á kjördegi. Það má því segja, að í dag hafi verið boðað til kosninga. Í Danmörku leiðir slík boðun til þess, að þingmenn hefja kosningabaráttu tafarlaust og hverfa úr þingsalnum.

Hér er sagt, að ástandið sé svo óvisst, að þingið verði að halda áfram störfum. Þeir, sem þannig tala hafa aðeins fengið eitt frumvarp um hag heimila samþykkt sem lög síðan ríkisstjórnin kom til starfa 1. febrúar. Einum þingdegi var kastað á glæ, af því að ekki fékkst nefndarálit á seðlabankafrumvarpi. Ólokið er afgreiðslu ágreiningsmála um breytingu á kosningalögum og stjórnarskránni, sem sem snerta hag heimila og fyrirtækja ekki á nokkurn hátt. Bæði málin kalla vafalaust á langar umræður en er haldið til streitu af ríkisstjórninni.

Ágreiningur er innan ríkisstjórnarflokkanna um frumvarp til laga vegna álvers í Helguvík en samþykkt þess leggur grunn að mörg hundruð ef ekki þúsund nýjum störfum og snertir mjög hag heimila og fyrirtækja. Óvissa er um, hvort ríkisstjórnin kemur þessu máli í gegnum nefndir þings.

Fórum klukkan 18.00 í hóf laganema Háskólans í Reykjavík (HR) í Valsheimilinu og þar flutti ég hátíðarávarp. Síðan fórum við á árshátíð HR í Fífunni í Kópavogi.