13.3.2009

Gætt skal raka og hófsemi.

Hátíðarræða, lagadeild HR. 13. mars, 2009.

Fyrir nokkrum árum var orðheppinn ræðumaður fenginn frá Íslandi til að tala á þorrablóti í London. Honum tókst ekki að halda athygli áheyrenda sinna  betur en svo, að hann stóð að lokum ráðalaus við hljóðnemann og spurði, hvort einhverjum öðrum en honum hefði verið boðið að flytja hátíðarræðuna.

Það er góð áminning  og gullin regla fyrir laganema og lögfræðinga, að segi ræðumaður það ekki á tveimur mínútum, sem hann vill koma til skila, hafi honum mistekist að orða hugsun sína nægilega skýrt og skarplega.

Lögfræðingar eiga meira undir því en flestir aðrir, að geta hnýtt alla enda máls síns saman á eftirminnilegan hátt og flutt það þannig, að rök og niðurstaða veki traust og trúnað. 

Sumir segja raunar, að mikil aðsókn að laganámi víða um heim ráðist af vinsælum sjónvarpsþáttum eins Perry Mason, Matlock eða Boston Legal, svo að nokkrir  heimsfrægir séu nefndir. Þar sjáum við lögmenn beita rökhugsun og mælskulist auk þess sem lögfræðingarnir bera af öðrum mönnum. Til marks um það vitna ég í orð Kolbrúnar Bergþórsdóttur í Morgunblaðinu nú um daginn, þegar hún sagði:

„Boston Legal er þáttur sem lífgar upp á tilveruna vegna þess að hann er fullur af sérstöku og skringilegu fólki sem tekur upp á alls kyns furðulegum hlutum og er alltaf óútreiknanlegt.“

Þetta er loflegur dómur um lögfræðingana, sem þarna láta ljós sitt skína og er ekki einkennilegt, þótt mörgum þyki skemmtilegt að skipa sér í stétt manna, sem þannig er kynnt til sögunnar.

Hér var fyrr í vetur Antonin Scalia, hæstaréttardómari í Bandaríkjunum, og flutti eftirminnilegt erindi um nauðsyn þess, að dómarar virtu valdmörk sín og seildust ekki inn á verksvið löggjafans.  Var aðdáunarvert að fylgjast með því, hve dómarinn, sem situr væntanlega mestan hluta starfstíma síns og hlustar á aðra, flutti mál sitt af mikilli lipurð og með skýrum rökum.

Scalia kom hingað til að minnast 100 ára afmælis lagakennslu á Íslandi.  Til kennslunnar var meðal annars stofnað með þeim rökum, að sjálfstæði Íslands væri í voða, ef íslenskir menn ættu að fara að nema íslensk lög við danskan háskóla á dönsku máli og frá dönsku sjónarmiði.

Hér var í vikunni annar heimskunnur lögfræðingur, Eva Joly saksóknari efnahagsbrota eða spillingarmála. Þið buðuð henni í lagadeild ykkar og flutti hún erindi fyrir fullu húsi,

Í fréttum var skýrt frá því einu, að hún hefði sagt nýstofnað embætti sérstaks saksóknara  brandara eða skrýtlu. Fleiri en ég hrukku vafalaust við, þegar þeir heyrðu þessa frétt.

Spurðist ég fyrir um, hvort Joly hefði notað  enska orðið „joke“  og reyndist svo vera.  Þá var mér líka sagt, að hún hefði ekki verið að tala um embættið sem slíkt, heldur að þar störfuðu aðeins fjórir menn.

Daginn eftir birtist viðtal við Joly í Morgunblaðinu, þar sem hún sagði, að við rannsókn mála byrjaði maður fyrst einn og hrópaði síðan á fleira fólk. Þau hefðu í upphafi verið fjögur í hina fræga Elf-máli í Frakklandi og aldrei náð heilum tug en hér þyrfti ekki færri en 20 manns til að rannsaka bankahrunið.

Þessi skýring setti orð saksóknarans í allt annað ljós og raunar hefðu fréttamennirnir átt að segja okkur, að Joly teldi það beinlínis hlægilegt, ef menn héldu, að ekki þyrfti fleiri en fjóra til að rannsaka hugsanleg lögbrot í aðdraganda og eftirleik bankahrunsins.

Af  hinum ónákvæmu fréttum um orð Joly má draga tvenns konar lærdóm:

Í fyrsta lagi hve mikilvægt er, að ekki sé með óvarlegu tali, jafnvel einu orði ýtt undir ranghugmyndir.

Í öðru lagi,  að lögfræðingar gegna lykilhlutverki við að skapa á ný traust í þjóðfélagi okkar.

Við aðstæður eins og þær, sem nú eru, mega lögfræðingar ekki missa sjónar á gildi þess að skýra mál með rökum og af hófsemi.  Auðvelt er að ýta undir umrót og upplausn með ábyrgðarlausu tali.  Nú er þörf á öðru.

Til líðandi stundar og tímans frá síðasta hausti verður lengi vitnað, enda ærin tilefni til þess. Atburðir, sem skella á okkur dag frá degi, verða skoðaðir frá öllum hliðum og innan lögfræðinnar verður tekist á um margt vegna þeirra.

Ýmsar ákvarðanir á stjórnmálavettvangi eru á gráu lögfræðilegu svæði um þessar mundir og hættan sú, þegar tilgangurinn helgar meðalið, að gripið sé til losaralegrar túlkunar á lögum, jafnvel stjórnskipunarlögum, og þessi túlkun verði síðar notuð sem fordæmi.

Ég hvet ykkur, góðir laganemar, til að fylgjast vel og af gagnrýni með atburðarás og gerjun  ekki síst á sviði stjórnsýslu og stjórnskipunar.  Fjármálakrísan ein er nógu alvarleg,  þótt hún setji ekki líka stjórnskipanina úr skorðum.

Góðir áheyrendur!

Ég lýk máli mínu með því að óska lagadeild Háskólans í Reykjavík til hamingju með, hve vel hún hefur dafnað síðan árið 2001 og hve öruggan sess hún hefur skipað sér.

Við Guðfinna S. Bjarnadóttir, fyrrverandi rektor, rifjuðum það upp í vikunni, að hún hitti mig sem menntamálaráðherra vorið 2000 - það er ekki lengra síðan - og kynnti hugmyndina um að koma á fót lagadeild og verkfræðideild við skóla ykkar.  Við urðum þá sammála um, að fyrst yrði látið reyna á lagadeild og hún kynnt með nýjum áherslum og alþjóðatengslum.

Í raun var þetta aldrei nein tilraun, því að Þórður Gunnarsson og samstarfsfólk hans fór þannig af stað, að frá upphafi skapaðist nauðsynlegt traust nemenda til deildarinnar. Hún varð strax öflugur vaxtarbroddur í tæplega 100 ára sögu lagakennslu á Íslandi og nú ná áhrif hennar langt úr fyrir veggi skólans.

Þess vegna er sannur heiður að vera boðið að ávarpa hátið ykkar í dag. Megi lagadeild Háskólans í Reykjavík halda áfram að vaxa af metnaði og áræði!