5.3.2009 10:16

Fimmtudagur, 05. 03. 09.

Var í kvöld í stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins og ræddi um stjórnskipun og stjórnsýslu.

Fyrr í dag flutti ég ræðu á þingi um frumvarp til breytinga á kosningalögum til að tryggja þar rétt til persónukjörs. Ég taldi frumvarpið vanbúið, þar sem ekki hefði verið unnið að undirbúningi þess í nægu samráði stjórnmálaflokka. Fráleitt vært, að þetta frumvarp breytti einhverju um úrræði til að takast á við bankahrunið. Þá væri einnig fráleitt að líta á það, sem vopn gegn flokksræði. Það auðveldaði hins vegar áróður með og gegn einstökum frambjóðendum og hefði ég kynnst því fyrir síðustu kosningar, þegar forystumaður viðskiptaveldis hefði beitt fé sínu til að auglýsa gegn mér daginn fyrir kjördag og hvatt til að strikað yrði yfir nafn mitt. Þessi breyting ýtti undir að slíkum aðferðum yrði breytt og gæti leitt til þess, að frambjóðendur yrðu hræddir við auðjöfra eða þrýstihópa. Hvort það væri rétta úrræðið vegna bankahrunsins að ýta undir slíkt?

Í hádeginu var ég í Dugguvogi 23, þar sem við nokkrir vinir Grétu Ingþórsdóttur komum saman í tilefni af því, að hún var að búa sig undir að opna formlega kosningaskrifstofu sína í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. Gerðum við nokkrar qi gong æfingar til að hækka orkustigið!

Í gærkvöldi flutti sjónvarp ríkisins sem fyrstu frétt að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra hefði sætt niðurskurði á undanförnum árum  og var gefið til kynna, að hún væri illa stödd. Í kvöld andmælti Ragna Árnadóttir, dóms - og kirkjumálaráðherra, efni þessarar fréttar, enda á hún ekki við rök að styðjast.

Hallgrímur Indriðason, fréttamaður á sjónvarpinu, hafði samband við mig í morgun og vildi ræða um efnahagsbrotadeildina og þessa frétt sjónvarpsins. Ég sá ekki ástæðu til að veita viðtal, en sendi Hallgrími þetta svar í tölvupósti:

Sæll Hallgrímur.

Málastaða efnahagsbrotadeildar var mjög góð um síðustu áramót eins og fram kemur í tilkynningu frá embætti ríkislögreglustjóra 23. desember 2008. Ég undrast, að hennar hafi ekki verið getið í frétt um deildina. Þar sagði:

Breytt skipulag efnahagsbrotadeildar og skilvirkari stjórnun frá 1. janúar 2007 hefur gert deildinni kleift að ljúka eldri málum og stytta verulega málsmeðferðartíma.

Fjöldi ákæra á árinu 2008 er meiri en nokkru sinni í sögu deildarinnar, að undanskildu árinu 2004.

Málastaða efnahagsbrotadeildar er betri en nokkru sinni fyrr.

Þá var þess einnig látið ógetið í fréttinni, að á þeim árum, sem tilgreind eru, var veitt fé sérstaklega til setts ríkissaksóknara, sem var með Baugsmálið og tók það viðamikla mál úr höndum efnahagsbrotadeildar.

Saksóknari efnahagsbrota hefur haft nóg með mál á sinni könnu. Ég taldi og tel, að hann eigi að einbeita sér að úrvinnslu og lyktum þeirra. Það kom aldrei til álita hjá mér að sameina embætti hans og hins sérstaka saksóknara. Allsherjarnefnd var með málið í sínum höndum, þegar Helgi Magnús Gunnarsson kynnti henni sjónarmið sín og féllst nefndin ekki á þau, enda í raun engin haldbær rök fyrir þeim miðað við ákvæði laganna um sérstakan saksóknara.

Ég hef áður sagt og ítreka, að ég sé engan annan tilgang með fréttum um meintan fjárhagsvanda efnahagsbrotadeildar en veikja traust til deildarinnar og tala hana niður.

Sérstökum saksóknara hefur verið falið að sinna rannsókn og hugsanlega saksókn vegna bankahrunsins, hann hefur viðtækari heimildir en saksóknari efnahagsbrota og ég fagna hugmyndum dóms- og kirkjumálaráðherra um að auka þær heimildir enn frekar. Viðskiptaráðuneytið stóð gegn svo víðtækum heimildum í ráðherratíð Björgvins G. Sigurðssonar.

Þetta eru sjónarmið mín í þessu máli og þau má hafa eftir mér í fréttum. Fortíðinni verður ekki breytt og yfirlit ríkislögreglustjóra frá 23. desember 2008 sýnir, að efnahagsbrotadeild vann sín verk vel innan þess fjárhagsramma, sem henni var settur.

Undarlegt er, að þið kjósið að bregða upp rangri mynd af stöðunni með vísan til talna, sem segja alls ekki alla söguna. Þetta er óvönduð fréttamennska og raunar óskiljanleg þeim, sem þekkja málavöxtu. Hitt er síðan íhugunarefni, hvers vegna þetta er fyrsta frétt í sjónvarpi nú 4. mars 2009. Mér finnst í raun engin rök fyrir því og hef ekki áhuga á að taka þátt í einhverjum fréttaleik með viðtölum um þetta margrædda mál. Fréttastofan verður sjálf að lýsa öllum hliðum þess, heiður hennar er í húfi. Spyrja má: Hvers vegna tekur fréttastofa RÚV málið til umræðu nú, þegar hið sama hefur verið flutt í öllum fjölmiðlum áður?

Með góðri kveðju

Björn Bjarnason