28.3.2009 20:24

Laugardagur, 28. 03. 09.

Landsfundur hófst klukkan 11.00 og þá kynnti Bjarni Benediktsson tillögu að stjórnmálaályktun. Þá gaf Andri Óttarsson, framkvæmdastjóri flokksins, skýrslu um starfsemi hans. Ég tók til máls undir þeim lið og kynnti hugmynd um að stofna sérstakt félag innan Sjálfstæðisflokksins um utanríkismál, en heimilt er að stofna slík félög um einstök málefni samkvæmt skipulagsreglunum.

Í hádegi bauð Bjarni Benediktsson, formannsframbjóðandi, upp á snarl í Þróttarheimilinu skammt frá Laugardalshöllinn og komu þangað fleiri en húsrúm leyfði.

Klukkan 14.00 flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir framboðsræðu til varaformanns. Loftur Alice Þorsteinsson gefur einnig kost á sér og séra Halldór Gunnarsson í Holti.

Klukkan 15.00 flutti Bjarni Benediktsson framboðsræðu til formanns og síðan Kristján Þór Júlíusson.

Klukkan 16.00 flutti Davíð Oddsson ræðu. Hér má sjá ræðu Davíðs.

Fyrir utan þessar stórræður voru umræður um ályktanir málefnanefnda.

Salurinn var þéttsetinn allan daginn fram yfir ræðurnar og var góður rómur gerður að ræðumönnum.