16.3.2009 21:11

Mánudagur, 16. 03. 09.

Fyrsti fundur sérnefndar um stjórnarskrármál undir formennsku Valgerðar Sverrisdóttur var haldinn klukkan 10.15 og kom þangað ráðgjafanefndin, sem samdi frumvarpið um breytingu á stjórnarskránni og um stjórnlagaþingið og fór yfir efni frumvarpanna. Þá var lagt fram kostnaðarmat fjármálaráðuneytis vegna stjórnlagaþings og er talið, að það kosti á bilinu 1700 til 2100 milljónir króna að efna til þingsins.

Ég sé, að framsóknarmenn eru farnir að kveinka sér undan þessum háu tölum og segjast hafa lagt fram tillögur um stjórnlagaþing, sem hefði átt að kosta 300 m.kr. en samstarfsmenn þeirra um ríkisstjórnina hafi heimtað höfundarrétt og gert þetta allt miklu dýrara. Um þetta á sem sagt að ræða í þessari sérnefnd nú síðustu daga þingsins og það á mikilli hraðferð, ef ég skil það rétt, vegna þess að um stjórnarskrármálin hafi verið rætt svo lengi áður! Vinnubrögðin eru dæmalaus, hvernig sem á þau er litið.

Ég frétti af því, að Siv Friðleifsdóttir. þingmaður Framsóknarflokksins, hefði reitt Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, til reiði í einhverjum útvarpsþætti með því að vitna til orða minna í þingræðu hinn 11. mars sl. um, að Björgvin hefði sem viðskiptaráðherra lagst gegn tillögum mínum um víðtækar rannsóknarheimildir sérstaks saksóknara. Þar þykir mér lítið leggjast fyrir kappann.

Hér má sjá ræður mínar um þetta mál á þingi 11. mars sl. Þar kemur ekki aðeins fram, að Björgvin hafi lagst gegn víðtækum heimildum heldur einnig, að Jóhanna Sigurðardóttir taldi, að ekki mætti verja of miklum fjármunum til embættisins. Það var einkenni Jóhönnu að rýna nákvæmlega í kostnaðarmat allra frumvarpa. Mátti helst skilja athugasemdir hennar á þann veg, að hún teldi fjármunina betur komna í einhver verkefni á vegum eigin ráðuneytis en annarra. Á rúmlega 12 ára ráðherraferli kynntist ég þessari afstöðu aðeins hjá henni.