19.3.2009 21:56

Fimmtudagur 19. 03. 09.

Í dag féll héraðsdómur í fíkniefnamáli, sem er sögulegur vegna aðferða lögreglu við að færa sönnur fyrir réttmæti ákæru sinnar. Sakfelling byggðist á öflugri rannsóknarvinnu lögreglu, það er nákvæmri rannsókn á símagögnum og samkeyrslu þeirra á grundvelli sérþekkingar starfsmanna upplýsinga- og áætlanadeildar embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þá skipti tækni við yfirheyrslur og tækjabúnaður í hljóð og mynd miklu.  Málinu hefur verið áfrýjað til hæstaréttar og mun niðurstaða hans skipta miklu um tæknilega framvindu við uppljóstrun mála og sönnunarfærslu.

Fréttir af því, að fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hafi fundið kannabisplöntur í ræktun í stóru iðnaðarhúsnæði á melunum við rætur Esju, sýna, hve bíræfnir fíkniefnasalar eru orðnir í landinu. Lögregla beitir einnig nýjum úrræðum á þessu sviði.

Um leið og lögreglu er óskað til hamingju með þennan árangur, skal áréttuð nauðsyn þess að skipulagi, þjálfun og tækjabúnaði sé hagað á þann veg, að metnaður einstakra lögreglumanna og alls liðsins fái notið sín sem best.

Skýrt var frá því undir kvöld, að Jóhanna Sigurðardóttir hefði ákveðið að bjóða sig fram til formennsku í Samfylkingunni og brugðist þannig við fjölda áskoranna.

Vorhefti tímaritsins Þjóðmála er nú til sölu í bókaverslunum auk þess, sem unnt er að kaupa það í net-bókaversluninni á www.andriki.is Þá má gerast áskrifandi með því að senda bréf á nb@simnet.is - ársáskrift (4. hefti) er 4.500 krónur, ef greitt er með kreditkorti annars 4.750 kr. Með þessu hefti hefst fimmti árangur tímaritsins, sem Jakob F. Ásgeirsson ritstýrir. Ég hvet lesendur síðu minnar til að gerast áskrifendur að þessu ágæta tímariti.