3.3.2009

Vopnlaus í Icesave-deilu.

Grein á AMX.IS 3. mars 2009.

Þegar rætt er um bankahrunið leita menn að sjálfsögðu skýringa á því, hvernig í ósköpunum það gat gerst, að unnt var að reisa svo háa peningaturna á svo veikum grunni. Skýringa á þessu er leitað um heim allan og eru þær mismunandi. Allt ber þó að sama brunni: Því var treyst, að í gildi væru ákveðnar leikreglur og menn virtu þær.

Eftir bankahrunið segja menn, að þessar reglur hefðu þurft að vera strangari og eftirlitið meira. Þá er litið fram hjá þeirri staðreynd, að látið var að því liggja, þegar allt lék í lyndi, að spurningin snerist aðeins um, hver væri snjallastur við að nýta sér tækifæri hins ódýra lánsfjármagns. Á skuldadögunum er hins vegar litið til annarra og jafnvel krafist meira af þeim en heimilt er.

Til þess að sölsa sem mestu af hinu ódýra lánsfé undir sig var gripið til margra ráða. Hér á landi kynntumst við því, hvernig reynt var að afla vinsælda og jafnvel virðingar með forseta þjóðarinnar í fararbroddi – boð á Bessastaði eða utanferð undir forystu hans kórónaði meistaraverkið. Fjölmiðlamenn, sem höfðu áunnið sér traust sem óhlutdrægir miðlarar upplýsinga, gerðust málsvarar auðmanna og fyrirtækja þeirra. Fjölmiðlar voru keyptir til að ráða upplýsingamiðlun alla leið. Stjórnmálamenn voru skammaðir, ef þeir tóku ekki þátt í leiknum. Boðað var, að stjórnmálin væru aðeins í þjónustu viðskiptalífsins. Vegið var að eftirlitsstofnunum og lagt höfuðkapp á, að þær leystu mál á bakvið luktar dyr. Alið var á tortryggni í garð þeirra eftirlitsmanna, sem störfuðu fyrir opnum tjöldum. Lögfræðingar soguðust inn í vítahring græðginnar og urðu margir af aurum apar.

Sérstakur saksóknari

Í leitinni að ábyrgð á því, sem gerðist verður að hafa allt þetta í huga. Eftir hrunið hefur leyndarhyggja og pukur því miður haldið áfram. Það ertil dæmis með miklum ólíkindum, að fjármálaeftirlitið skuli ekki hafa afhent embætti sérstaks saksóknara skýrslur endurskoðendafyrirtækja, sem falið var að gera úttekt á stöðu mála fyrir og eftir hrunið.

Við gerð frumvarpsins um sérstakan saksóknara og afgreiðslu þess í ríkisstjórn var ljóst, að ráðherrum Samfylkingarinnar var ekkert kappsmál að flýta málinu. Þeir báru meðal annars fyrir sig, að það þyrfti að eiga samleið með frumvarpi forseta alþingis um sérstaka rannsóknarnefnd, en vinstri/græn undir forystu Steingríms J. Sigfússonar töfðu meðferð þess á vettvangi forsætisnefndar þingsins. Þegar ég vék að þeirri staðreynd í ræðustól alþingis, gekk Steingrímur J. ógnandi að mér og virtist ætla að stjaka við mér en hélt síðan að Geir H. Haarde, forsætisráðherra, þar sem hann sat og lagði hönd óvinsamlega á öxl hans.

Samfylkingarráðherrar settu ekki aðeins í lága drifið við afgreiðslu frumvarpsins um sérstakan saksóknara heldur snerist viðskiptaráðuneytið undir forystu Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, einnig gegn ákvæðum í frumvarpinu, sem hefðu veitt hinum sérstaka saksóknara ríkari heimildir til að hlutast til um mál á verksviði fjármálaeftirlitsins. Til að greiða fyrir framgangi málsins og forðast efnislegan ágreining, sem hefði getað tafið málið enn frekar við ríkisstjórnarborðið, féllst ég á sjónarmið viðskiptaráðherra.

Þegar ég leiði hugann að þessu, finnst mér enn einkennilegra en ella, að hlusta á Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, berja sér á brjóst og segjast ætla að taka rösklega til hendi til að flýta málum og sjá til þess að leiða þau til lykta á skjótan hátt. Staðreynd er, að stjórnarmyndunin, brottrekstur embættismanna og hins lélega stjórnsýsla, sem setur nú svip sinn á störf ráðherra, er vísasti vegurinn til þess, að illa og óskipulega sé tekið á málum, þegar nauðsynlegt er að íhuga hvert skref, sem stigið er vandlega, svo að ekki sé látið af gæslu brýnna hagsmuna eða illt gert enn verra.

Utanríkisráðherra svarar vegna Icesave

Hér hefur verið vikið á því, sem lýtur að viðbrögðum innan lands vegna bankahrunsins. Hvað með aðgerðir gagnvart öðrum löndum? Hinn 26. febrúar var lagt fram á alþingi skriflegt svar Össurar Skarphéðinssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurnum frá Siv Friðleifsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, um skoðun á Icesave-ábyrgðum.

Spurt var, hvort utanríkisráðherra hefði látið skoða á innlendum eða erlendum vettvangi, hvort Íslendingum bæri lagaleg skylda til að greiða Icesave-ábyrgðirnar og ef svo væri, hver hefði orðið niðurstaða þeirrar skoðunar.

Utanríkisráðherra segir ýmsar álitsgerðir, innlendar og erlendar, liggja fyrir og hafi utanríkisráðuneytið og önnur ráðuneyti með aðild að Icesave-viðræðunum kynnt sér þær og stuðst við þær í viðræðum um Icesave-málið við aðrar þjóðir. Þar er eins og kunnugt rætt um, hve miklar skuldbindingar skuli falla á íslenska skattgreiðendur vegna Icesave-reikninga Landsbanka Íslands erlendis og er talið, að þær geti numið allt að 650 milljörðum króna, ef allt fer á versta veg.

Utanríkisráðherra segir trúnað verða að ríkja um „einstakar álitsgerðir“ en segist þó geta upplýst „að þungvæg lögfræðileg rök eru talin hníga að því að túlka tilskipunina um innistæðutryggingar [það er tilskipun ESB, sem bindur okkur Íslendinga vegna aðildar að evrópska efnahagssvæðinu] þannig að íslenska ríkið verði að hlaupa undir bagga með tryggingarsjóðunum [það er þeim sjóði, sem er ætlað að tryggja þeim, sem eiga fé á bankareikningum, greiðslu þess fjár, þótt bankinn fari í þrot] til að tryggja lágmarkstryggingar samkvæmt ákvæðum tilskipunarinnar [það er tæplega 21 þúsund evrur að hámarki til hvers reikningseiganda].“ Ráðherrann skýrir jafnframt frá því, að fram hafi komið gagnstæð lögfræðileg rök, það er á þann veg, að með því að koma á fót tryggingarsjóði innistæðna hafi Íslendingar fullnægt skyldum sínum, íslenska ríkið eigi ekki að hlaupa undir, þótt sjóðurinn dugi ekki til að standa undir þeim kröfum, sem bankareikningseigendur gera.

Ráðherrann segir íslenska samningamenn halda því fram „af miklum þunga“, að íslenska ríkinu „beri ekki að ábyrgjast innistæður umfram þá upphæð sem var í tryggingarsjóði innistæðueigenda.“ Þá hafi verið kannað að fá úr málinu skorið „fyrir dómi eða með öðrum viðunandi lögfræðilegum hætti.“ Hollendingar, Bretar og Evrópusambandið hafi neitað að ljá máls á meðferð fyrir dómi og njóti til þess stuðnings Evrópusambandsins og Noregs. Það sé sögð fráleit lögfræðileg túlkun, að takmarka eigi ábyrgðir við eignir tryggingarsjóðsins og „málarekstur um slíkt sé til þess eins fallinn að grafa undan, ef ekki kollvarpa. trausti á fjármálakerfi allra Evrópuríkja.“

Í utanríkismálanefnd

Icesave-málið var til umræðu í utanríkismálanefnd alþingis miðvikudaginn 25. febrúar og þar sat Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, fyrir svörum. Hann hafði í stjórnarandstöðu lýst sig andvígan þeirri stefnu, sem þáverandi ríkisstjórn fylgdi. Steingrímur J. telur sig nú bundinn af ákvörðunum alþingis í tíð hennar og hefur skipað viðræðunefnd undir formennsku Svavars Gestssonar, sendiherra, til að semja um Icesave-mál við Breta og Hollendinga.

Á þessum fundi utanríkismálanefndar skýrði ég frá því, að í fyrrverandi ríkisstjórn hefði ég lýst þeirri skoðun, að hvað sem liði ákvörðun um viðræður við Hollendinga og Breta um pólitíska lausn á Icesave-deilunni, mætti ekki kasta frá sér fyrirvaranum um að sækja málið á lögfræðilegum grunni. Eins og svar Össurar Skarphéðinssonar ber með sér, hefur þeim kosti verið ýtt til hliðar af utanríkisráðuneytinu.

Lögfræðileg skoðun

Tveir íslenskir lögfræðingar, Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hrl., hafa ritað nokkrar greinar í Morgunblaðið til stuðnings því sjónarmiði, að frá lögfræðilegum sjónarhóli beri Íslendingum ekki að standa undir meiri skuldbindingum vegna Icesave-reikninganna en rúmast innan tryggingarsjóðs innistæðna.

Þeir rita enn grein í Morgunblaðið 3. mars, þar sem þeir lýsa vanþóknun að svari Össurar Skarphéðinssonar vegna Icesave-málsins. Þeir telja það efnislega rýrt og segja:

„Í máli sem varðar hagsmuni fyrir okkur Íslendinga upp á 650 milljarða króna er ekki boðlegt að láta við það sitja að fullyrða að til séu »þungvæg« rök gegn því sem við höldum fram en ekki sé hægt að segja frekar frá þeim rökstuðningi.“

Þeir ítreka þá skoðun sína, að Íslendingar hafi fullnægt skuldbindingum sínum með því að koma á fót innstæðutryggingakerfi sem hefði dugað undir öllum venjulegum kringumstæðum. Engar athugasemdir hafi komið frá ESB við þau lög sem samþykkt voru hér árið 1999 um innlánstryggingakerfi. Þetta kerfi skuli fjármagnað af bönkum en ekki ríkinu. Bankastarfsemi megi ekki íþyngja með kerfinu, það hefði gerst hér, ef bönkum hefði verið gert skylt að eiga tryggingar vegna allra innistæðna. Íslenska ríkið verði ekki sjálfkrafa bótaskylt.

Þeir benda á, að rök Evrópusambandsins gegn því, að málið fari fyrir dómstóla séu pólitísk en ekki lögfræðileg og segja síðan:

„Það kann að vera hárrétt hjá evrópskum stjórnmálamönnum að skynsamlegt sé að koma í veg fyrir að deila um innlánstryggingakerfin fari fyrir óháða dómstóla. Slíkt dómsmál er líklegt til að draga fram galla kerfisins og draga verulega úr tiltrú á því. Ekki er fjarri að sýna því skilning að ESB-ríkin vilji ekki að þessi mál fari fyrir dómstóla. Það er hins vegar aldrei hægt að samþykkja að fórnarkostnaðurinn verði lagður á okkar litla land án þess að lögfræðileg rök liggi til þess.“

Ég tek undir þessa skoðun og árétta hana. Það er fráleitt af íslenskum stjórnvöldum að afsala sér réttinum til að láta á það reyna á lögfræðilegum grunni, hver sé ábyrgð íslensku þjóðarinnar vegna þessara bankareikninga erlendis. Yfirlýsing í þá veru er ekki aðeins efnislega fráleit, hún grefur einnig undan samningsstöðu okkar við þær þjóðir, sem við er að eiga, og Evrópusambandið.

Afstaðan til Evrópusambandsins

Þegar rætt er um þessi mál á stjórnmálavettvangi, er ástæðulaust að líta fram hjá stjórnmálaágreiningi um afstöðuna til Evrópusambandsins og aðildar að því. Það fer ekki fram hjá neinum, að bæði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, núverandi utanríkisráðherra, eru eindregnir talsmenn þess, að Ísland gangi í Evrópusambandið og það sem allra fyrst. Í Brussel telja reyndar margir, að þau biðji um aðild á hnjánum. Að ganga gegn Evrópusambandinu og hagsmunum þess í máli af þeirri stærðargráðu fyrir allt sambandið og hér um ræðir, yrði að sjálfsögðu litið á sem drottinssvik og óvinafagnað í Brussel.

Sé því hreyft hér, að lögfræðilega sé ekkert því til fyrirstöðu að óska eftir viðræðum við Evrópusambandið um aðild að evru-landi, án þess að ganga inn í það, er þeim sjónarmiðum kastað út í hafsauga, af því að Brussel-valdamenn mega ekki heyra á þau minnst. Hneykslunin verður enn meiri, ef talað er um einhliða upptöku evru.

Andstöðuna við að láta reyna á lögfræðilega hlið Icesave-málsins ber að skoða í þessu ljósi: Við skulum ekki gera neitt, sem styggir þá í Brussel – blessaðir mennirnir gætu séð regluverk sitt í bankamálum hrynja. Hver býst við því, að á þessum grunni, nái menn viðunandi árangri í samningaviðræðum um Icsave-skuldbindingarnar? Þegar þyngsta vopninu hefur verið ýtt til hliðar.

Þróttleysið við að gæta íslenskra hagsmuna með öllum rökum, lögfræðilegum og pólitískum, snýr ekki aðeins að niðurstöðu samninga um Icesave heldur ekki síður að stöðu okkar gagnvart breskum stjórnvöldum, sem sýndu hroka og yfirgang í garð íslensku þjóðarinnar á örlagastundu. Hvað hafa forystumenn Samfylkingarinnar, sem sumir sögðust hreyknir vera í breska Verkamannaflokknum fyrir hrunið, gert til að rétta hlut Íslands gagnvart flokksbræðrum sínum eftir það?

Alþjóðasamningar, lögfræðileg túlkun þeirra og beiting hefur verið talin besta vörn smáríkja gegn hinum stærri og öflugri. Hér hefur utanríkisráðuneytið undir stjórn tveggja ráðherra úr Samfylkingunni ákveðið að láta frekar reyna á pólitíska snilli sína en hin lagalega rétt. Þá er ástæða til að spyrja: Hvað hafa utanríkisráðherrarnir gert á hinum pólitíska vettvangi? Er það kannski leyndarmál eins og hinar lögfræðilegu álitsgerðir?