1.3.2009 17:18

Sunnudagur, 01. 03. 09.

Qi gong dögunum í Skálholti lauk með messu kl. 11.00, þar sem séra Egill Hallgrímsson, sóknarprestur, prédikaði og síðan hádegisverði. Við svo búið kvöddum við Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla, sem skapaði okkur hina bestu aðstöðu.

Síðdegis heimsótti ég Sigurð Kára Kristjánsson, alþingismanna, sem opnaði prófkjörsskrifstofu í Skeifunni að viðstöddu miklu fjölmenni. Hann keppir að því að ná 2. til 3. sæti á lista okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík

Mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar ráðherrar og launaðir ráðgjafar þeirra í stjórnlagafræðum láta eins og ekki þurfi neitt að huga að stjórnarskrá og stjórnskipunarreglum, þegar erlendur ríkisborgari er settur sem seðlabankastjóri til bráðabirgða.

Öðru vísi mér áður brá. Jóhanna Sigurðardóttir hefur árum saman hefur flutt alls kyns stjórnlagatillögur á alþingi. Hún hefur á þeirri stundu, sem hún sat við að semja allt það tillöguflóð, örugglega ekki haft hugmyndaflug til að ímynda sér, að nokkrum forsætisráðherra dytti í hug að stíga þau stjórnsýslulegu og stjórnskipulegu óheillaskref, sem hún hefur stigið á stuttum ferli sínum í forsætisráðuneytinu.

Samkvæmt stjórnarskránni skulu íslenskir ríkisborgarar skipa íslensk embætti. Að þetta vefjist fyrir einhverjum er í raun ótrúlegt. Hitt er síðan með ólíkindum, að sú áhætta skuli tekin að ganga gegn þessu ákvæði, þegar seðlabankastjóri á í hlut. Við það vakna spurningar um, hvort ákvarðanir seðlabankastjórans kunni að verða taldar ógildanlegar. Er það brýnast nú að kalla slíka óvissu yfir íslenskt fjármálakerfi?

Það er til marks um þá stjórnarfarslegu firringu, sem ríkir, að í leiðara Morgunblaðsins laugardaginn 28. febrúar um setningu Norðmanns í embætti seðlabankastjóra skuli standa:

„Stjórnarandstaðan á Alþingi leggst vonandi ekki í fleiri lagakróka til að vefengja að rétt hafi verið að ráðningu hins nýja seðlabankastjóra staðið.“

Þetta snertir ekkert stjórnarandstöðuna á þingi. Málið snýr að lögmæti ákvarðana seðlabankastjóra, sem starfar við þessar aðstæður. Dómstólar eiga síðasta orð um lögmætið, hvorki ríkisstjórn, alþingi né sjálfur ritstjóri Morgunblaðsins.

Á fráfarandi seðlabankastjóra hefur verið pundað endalausum spurningum undanfarna mánuði vegna atvika í tengslum við bankahrunið. Fjölmiðlamenn hafa síður en svo sætt sig við svörin og jafnað viljað vita meira. Nú bregður svo við, að settur seðlabankastjóri segist ekki muna, hvenær hann var beðinn um að taka við embættinu við þessar sérkennilegu aðstæður - og enginn fjölmiðlamaður segir neitt. Forverarnir báru aldrei við minnisleysi - þeir hefðu betur gert það til að stöðva spurningaflóðið.