10.3.2009 19:51

Þriðjudagur, 10. 03. 09.

Umræður á alþingi snúast nú um frumvarp til breytinga á stjórnarskránni. Þetta er skrýtið frumvarp, því að gert er ráð fyrir að breyta stjórnarskránni en boða jafnframt til stjórnlagaþings til að breyta henni aftur. Kostnaður við stjórnlagaþing er talinn geta numið allt að 1,5 milljarði króna.

Í ræðu minni um málið í dag sagði ég undarlegt, að hlusta á þingmenn, sem hefðu árum saman kvartað undan áhrifaleysi alþingis, leggja nú fram tillögu um að færa frá þinginu stjórnarskrárvaldið til sérstaks stjórnlagaþings. Miklu nær væri að halda þessu valdi hjá alþingi en efna síðan til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingu, sem þingið samþykkti.

Þá væri fráleitt að gera því skóna í greinargerð með frumvarpinu, að ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindum tryggði eitthvað gagnvart Evrópusambandinu. Hitt væri síðan enn til marks um tvískinnung Samfylkingarinnar, að í þessum tillögum væri ekki að finna ákvæði, sem heimilaði aðild að Evrópusambandinu, en án breytinga í þá átt þýddi ekki að tala um aðild.

Furðulegt er að hlusta á ásakanir í garð okkar sjálfstæðismanna um málþóf, vegna þess að við ræddum frumvarp um úttekt á séreignasparnaði á þingi fram á kvöld í gær.

Ég sé, að áhugamenn um síðuna mína hafa leitað logandi ljósi að því, sem ég hef sagt um málþóf undanfarin 14 ár. Eftirtekjan er frekar rýr, eins og sjá má hér. Fráleitt er, að nokkur þingmaður sé andvígur málþófi. Við sjálfstæðismenn höfum ekki beitt málþófi á þessu þingi og ekki tekið neitt mál í gislingu eins og gjarnan er gert með því að beita þessari aðferð. Í þingflokki okkar eru 26 þingmenn og vilji margir tala í einhverju máli tekur það vissulega sinn tíma. Við búum ekki við skert málfrelsi. Að líta þannig á, að aðeins andstæðingar í stjórnmálum megi nýta sér rétt til andsvars, stenst ekki gagnrýni. Engum dytti í hug að setja ákvæði um slíkt í þingsköp.

Ríkisútvarpið heldur úti tveimur fréttamönnum til að segja frá því, sem gerist á alþingi. Fréttir um, að við sjálfstæðismenn séum með málþóf, endurspegla líklega, að fréttamennirnir telja sig ekki hafa frá neinu að segja, þegar við sjálfstæðismenn tölum, því að frásagnir þeirra byggjast ekki á því, hvað er fréttnæmt, heldur hverjir tala.