20.3.2009 20:57

Föstudagur, 20. 03. 09.

Sérnefnd um stjórnarskrármál sat á fundi frá 08.30 til 14.15 í dag og fékk til sín sérfróða gesti. Eftir því sem fleiri koma á fund nefndarinnar, þeim mun fleiri spurningar vakna um það, hvers vegna í ósköpunum flokkarnir að baki ríkisstjórninni ákveða að stofna til umræðna um þessi álitamál núna.

Ég ítreka þá skoðun mína, að eina atriði þessara tillagna, sem eðlilegt er að afgreiða núna, snýst um aðferðina við að breyta stjórnarskránni, það er flytja valdið að hluta í hendur þjóðarinnar beint með því, að skylt verði að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar. Sé þessi breyting gerð, kemur hún á móts við hugmyndina um stjórnlagaþing.

Til að fleiri komi að gerð stjórnarskrárinnar en þingmenn er eðlilegt að skipa eða kjósa þinginu ráðgjafarnefnd um breytingar á stjórnarskrá, nefnd, sem yrði falið að semja tillögur og kynna á fundum um land allt, áður en þær yrðu lagðar fyrir alþingi til samþykktar eða synjunar. Með slíkri skipan yrði komið til móts við hugmyndina um stjórnlagaþing og siglt fram hjá hinum óheyrilega kostnaði, sem slíku þingi fylgir.

Ég gekk til starfa í sérnefndinni með opnum huga og án þess að hafa myndað mér ígrundaða skoðun fyrir fram um einstakar greinar frumvarpsins. Eftir að hafa rætt frumvarpið í fjóra daga í þessari viku og hlustað á sjónarmið gesta sérnefndarinnar, er ég sannfærður um, að samþykkt þessa frumvarps mundi aðeins gera illt verra. Þá tek ég undir með Tryggva Gíslasyni, fyrrverandi skólameistara MA, þegar hann segir í bréfi til okkar þingmanna, að það hafi verið mistök að leita ekki sátta við Sjálfstæðisflokkinn, áður en frumvarpið var lagt fram á alþingi. Það er með öllu ófært að afgreiða mál af þessu tagi í ósátt á alþingi.

Úr því að ríkisstjórnin undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur hafði ekki rænu á að vinna þetta mál í samræmi við hefðir um breytingu á stjórnarskránni, reynir meira en ella á Valgerði Sverrisdóttur, formann sérnefndarinnar. Henni ber að leita sátta í nefnd sinni.