27.3.2009 21:11

Föstudagur, 27. 03. 09.

Landsfundurinn hófst klukkan 09.00 í morgun á umræðum um Evrópumál. Lögð var fram tillaga Evrópunefndar í nýjum búningi eftir tillögur um efni hennar á fundi um málið kvöldið áður.

Ég var meðal fyrstu ræðumanna í umræðunni og hvatti til þess, að tillagan yrði samþykkt, enda væri þar tekið af skarið um, að hagmunum Íslands væri áfram best borgið utan Evrópusambandsins auk þess væri að finna ákvæði í tillögunni um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, ef tekin yrði ákvörðun á alþingi um að sækja um aðild. Yrðu þá fyrst greidd atkvæði um efni umsóknar, áður en hún yrði send til ráðherraráðs sambandsins og síðan um aðildarkjör, ef svo bæri undir að lokinni meðferð á umsókninni í viðræðum við ESB. Í ályktuninni er einnig að finna ákvæði um viðræður við ESB um aðild eða gjaldmiðilssamstarf sérstaklega. Þetta tvennt þurfi ekki að fara saman.

Umræður voru miklar og komu fram breytingartillögur um, að ályktað yrði um það eitt að hafna aðild eða það eitt að ganga til aðildarviðræðna. Voru þessar tillögur bornar upp sérstaklega en kolfelldar og tillaga Evrópunefndarinnar samþykkt af öllum þorra fundarmanna og hvatti ég eindregið til þess, enda væri hún best til þess fallin að sætta ólík sjónarmið í flokknum. Málsvarar ESB-aðildar sættu sig vel við þessa niðurtstöðu og þess vegna er einkennilegt að sjá aðildarsinna í öðrum flokkum gera lítið úr henni. Sannar það aðeins, að þeim finnst það þjóna málstað sínum best að ráðast á Sjálfstæðisflokkinn sýknt og heilagt og helst með innantómum slagorðaflaumi.

Umræðum um tillöguna lauk fyrir hádegi og strax á fundi klukkan 13.30 var hún tekin til lokaafgreiðlsu. Við svo búið var tekið til við að ræða tillögu endurreisnarnefndar flokksins, sem starfaði undir formennsku Vilhjálms Egilssonar. Voru umræður stuttar og tillagan samþykkt samhljóða.

Tókst þannig vel til við afgreiðslu þessara tveggja stórmála og á þann veg, að um niðurstöðu þeirra ríkti sátt og eindrægni.