11.3.2009 17:56

Miðvikudagur, 11. 03. 09.

Utanríkismálanefnd alþingis kom saman klukkan 10.15 í morgun. Dr. Valur Ingimundarson prófessor kom á fund hennar og gerði grein fyrir skýrslu hættumatsnefndar, sem hóf störf í nóvember 2007 og hefur nú lagt mat á hættur, sem kunna að steðja að Íslendingum og Íslandi.

Álitið er ítarlegt, um 150 blaðsíður, og leggur grunn að málefnalegum umræðum um stöðu Íslands og úrræðum til að tryggja öryggi landsmanna sem best.

Þingfundur hófst klukkan 12.00 á umræðum um störf þingsins en undir þeim lið geta þingmenn rætt hvaðeina, sem þeim liggur á hjarta þann daginn. Ég undrast, hve samfylkingarþingmönnum er ESB-aðild ofarlega í huga í ljósi þess, að þeir eru í samstarfi við vinstri-græna og leggja fram tillögu um breytingu á stjórnarskránni, án þess að þar sé tekið á því álitaefni, hvernig henni skuli breytt, ákveði Íslendingar að ganga í sambandið.

Klukkan rúmlega 14.00 hófst lokaþáttur fyrstu umræðu um breytingar á stjórnarskránni. Upphaf fundar tafðist, vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var ekki í þinghúsinu, en hún er fyrsti flutningsmaður málsins. Umræðunum lauk rétt um klukkan 16.00.

Í greinargerð með frumvarpinu eru vangaveltur um, að ákvæði þess um náttúruauðlindir sem þjóðareign auðveldi varðstöðu gagnvart yfirráðakröfum Evrópusambandsins, ef í það yrði gengið. Ég dreg í efa, að þessi ályktun um efni greinarinnar standist og í ræðu minni spurði ég vinstri-græna, hvort þeir væru sammála textanum í greinargerðinni. Atli Gíslason svaraði því neitandi fyrir þeirra hönd.

Í máli okkar sjálfstæðismanna kom fram, að við gætum fellt okkur við tillöguna í 2. gr. frv. um breytingu á 79. gr. stjórnarskrárinnar í þá veru, að samþykkt alþingis um breytingu á stjórnarskránni skuli borin undir þjóðina í sérstakri atkvæðagreiðlsu og ekki taka gildi, nema hún sé samþykkt í slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að mínu áliti yrðu það farsælar lyktir þessara umræðna um breytingu á stjórnarskránni, að slík breyting næði fram að ganga og annað yrði látið bíða að sinni. Fallist stjórnarsinnar ekki á málamiðlun af þessu tagi er líklegt, að stjórnarskrármálið þvælist fyrir þingstörfum, þar til þeim verður að ljúka vegna kosninganna 25. apríl og engu takist að hnika í stjórnarskránni.

Fráleitt er að saka okkur sjálfstæðismenn um að tefja fyrir þingstörfum, þegar við lýsum skoðun okkar á breytingum á stjórnarskránni. Stjórnarflokkarnir og stuðningsflokkar þeirra ákveða að leggja þetta mál fram á lokadögum þings og verða að sætta sig við, að um það sé rætt.

Ég tek hjartanlega undir það, sem segir á amx.is í dag um skrif staksteinahöfundar Morgunblaðsins um þingstörfin - þessi skrif eru á of lágu plani fyrir blaðið.