21.3.2009 20:59

Laugardagur, 21. 03. 09.

Gettu betur, er einn vinsælasti sjónvarpsþátturinn og er nú sýndur á laugardagskvöldum með Evu Maríu Jónsdóttur sem spyrjanda og Davíð Þór Jónsson sem dómara. Ég minnist þess, að í tíð minni sem menntamálaráðherra höfðu fulltrúar framhaldsskólanema samband við mig til að létta af sér ótta við, að sjónvarpið léti þáttinn niður falla.

Með nokkrum ólíkindum er, hvernig talað er til Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, á bloggsíðum. Einkennilegast er, þegar látið er að því liggja, að hann hafi ekki burði til að sinna embætti sínu, af því að hann hafi verið sýslumaður á Akranesi. Þessi hofmóður í garð embættismanna utan 101 Reykjavík hefur teygt sig út fyrir landsteinana, meðal annars í frásagnir af því, að Eva Joly ætli að leggja Ólafi Þór og öðrum íslenskum embættismönnum lið.

Í störfum sínum hefur Ólafur Þór sýnt, að hann skorast ekki undan því að takast á við erfið verkefni. Öllum má hins vegar gera ókleift að takast á við það, sem við þeim blasir, ef ómaklega er grafið undan trausti. 

Eitt er að fá hæfa menn til að starfa við opinber embætti utan höfuðborgarsvæðisins, annað að látið sé að því liggja, að þeir, sem taka að sér slík embætti og sinna þeim af alúð, séu ekki færir til að sinna öðrum störfum, ef þeir fullnægja öllum kröfum lögum samkvæmt.