3.10.2010

Sunnudagur, 03.10.10.

Fögur litadýrð á Þingvöllum í haustblíðunni. Hitinn óvenjumikill eftir árstíma. Margt fólk var á ferð í þjóðgarðinum og naut dagsins.

Fréttir herma, að Bandaríkjastjórn hafi sent frá sér alvarlegustu hryðjaverkaviðvörun síðan 2001. Hún byggist á mati CIA og annarra eftirlitsaðila í Bandaríkjunum. Hættan er einkum talin steðja að ferðamönnum í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Breska utanríkisráðuneytið hefur varað Breta í Þýskalandi og Frakklandi við hættunni. Sænska öryggislögreglan Säpo hefur hækkað hættustigið í Svíþjóð.

Íslensk lögregluyfirvöld glíma við þann vanda í tilvikum sem þessum, að hér heimila lög yfirvöldum ekki að stunda forvirkar rannsóknir. Þá eru ekki heldur íslensk lög um meðferð upplýsinga frá erlendum leyniþjónustum.

Ragna Árnadóttir setti sem dómsmálaráðherra á fót nefnd til að huga að forvirkum rannsóknarheimildum. Eitt hið fyrsta, sem Ögmundur Jónasson gerði var að kippa grundvelli undan starfi nefndarinnar með því að lýsa andstöðu sinni við slíkan viðbúnað.

Ábyrgð þeirra stjórnmálamanna er mikil, sem standa í vegi fyrir því, að til þessara mála sé litið fordómalaust og þörf fyrir öryggisráðstafanir metin af raunsæi. Að sitja með hendur í skauti kynni að leiða til ákæru fyrir landsdómi - eða hvað?