2.10.2010

Laugardagur, 02. 10. 10.

Síðdegis fór ég í Kjarvalsstaði, þar sem Pétur Ármannsson flutti fróðlegan fyrirlestur um Jón Haraldsson, arkitekt. Fyrirlestrasalurinn var þéttsetinn. Þar mátti sjá lampa, sem Jón hannaði fyrir íslenskan veitingastað við Regent Street í London á sjöunda áratugnum. Eyjólfur Pálsson í Epal hafði búið þá undir smíði samkvæmt teikningum Jóns. Að loknum fyrirlestri Péturs sögðu fjórir menn frá persónulegum kynnum sínum af Jóni.

Eitt þeirra húsa, sem Pétur lýsti var byggingin milli Gamla Garðs og Þjóðminjasafns, sem kennd er við Félagsstofnun stúdenta. Ég var í stjórn stofnunarinnar, þegar húsið var reist og kynntist Jóni í tengslum við það. Þótti mér fróðlegt að heyra, hve húsið er mikilvægur í liður í þróunarsögu Jóns sem arkitekts. Þeim mun leiðinlegra var að heyra lýsingu Péturs á því, hve litla virðingu húsinu hefur verið sýnd. Taldi hann brýnt að friða að minnsta kosti anddyri þess og fleiri höfundareinkenni Jóns, sem enn mætti varðveita.