5.10.2010

Þriðjudagur, 05.10.10.

Eins og við var að búast, talaði Jóhanna Sigurðardóttir um fund með stjórnarandstöðunni í sjónvarpinu í gærkvöldi í von um, að það fleytti stjórnmálaumræðum í gegnum daginn í dag í fjölmiðlum. Hún vissi, sem var, að fréttamenn myndu beina athygli sinni að þessu fyrst og síðast í dag. Fundurinn varð auðvitað ekki til neins, því að ríkisstjórnin er ekki til þess búin að hlusta á neinar aðrar „lausnir“ en sínar eigin - hin hreinræktaða vinstri stjórn, sú fyrsta í Íslandssögunni, getur ekki látið sjónarmið annarra menga stefnu sína.

Þegar ég sat í ríkisstjórn með Jóhönnu og harðnaði á dalnum, reyndi óhjákvæmilega meira á félagsleg úrræði á verksviði hennar sem félagsmálaráðherra heldur en málefni dómsmálaráðherra. Þó var eitt mál, sem snerti gjaldþrotaskiptalögin og var á mínu verksviði. Í minni tíð kallaðist það skuldaaðlögun og fól ég sérfræðingum að huga að lagabreytingum í því skyni.

Þetta var úrræði til að koma til móts við þá, sem skulduðu mikið.  Samfylkingunni var það kært. Björgvin G. Sigurðsson tók að gefa sverar yfirlýsingar um þetta efni, þegar hann varð viðskiptaráðherra, þar til hann áttaði sig á því, að það féll ekki undir verksvið viðskiptaráðuneytisins.

Þunginn í málinu jókst eftir fall bankanna og brást varla, að Jóhanna beindi orðum að mér um það, þegar rætt var um aðgerðir vegna hrunsins. Ég sagði, að nauðsynlegt væri að vanda hvert skref í þessu efni. Bætti ég því gjarnan við, að til væru aðrar og betri leiðir til að koma til móts við skuldara en þessi og ríkinu væri hæg heimatökin, eftir að allir bankar væru komnir í þess eigu. Bankarnir gætu breytt kjörum á lánum sínum.

Jóhanna hlustaði ekki á neitt slíkt. Frumvarp um skuldaaðlögun var tilbúið um áramót 2008/2009, ný ríkisstjórn undir forsæti Jóhönnu tók við 1. februar. Frumvarpið í dómsmálaráðuneytinu var flutt með þeirri breytingu, að talað var um greiðsluaðlögun í stað skuldaaðlögunar. Minnist ég þess, að þeir Árni Páll Árnason og Mörður Árnason fluttu barnalegar grobbræður um málið á þingi upptendraðir af eigin lofi um Jóhönnu. Þetta væri allt henni að þakka.

Frumvarpið varð að lögum og hefur framkvæmd þeirra síðan verið sífelldur höfuðverkur og virðist það frekar hafa kynnt undir reiði skuldara en hitt. Frá upphafi var augljóst, að kerfislausn af þessu tagi með aðstoð tilsjónarmanns og að tilstuðlan dómara dygði fáum.  Reynslan hefur sagt mér, að kvartanir Jóhönnu yfir því að frumvarp kæmi ekki frá mér voru í ætt við þá áráttu hennar að benda á eitthvað annað eða einhvern annan í stað þess að sinna því, sem hún hefur sjálf á valdi sínu.