29.10.2010

Föstudagur 29. 10. 10.

Ég hef fengið nokkrar athugasemdir vegna þess sem ég sagði hér á síðunni í gær um kommurnar. Eru greinilega skiptar skoðanir meðal lesenda minna um ágæti þess að nota kommur. Á sínum tíma átti ég hlut að því að Árni Böðvarsson gaf út bók með ýmsum góðum ritreglum og ábendingum. Fletti ég upp í henni mér til glöggvunar. Þar segir Árni ekki mikið um kommur. Hann leggur þó til að spara þær frekar en hitt. Reglur um kommusetningu hafi fyrst verið settar í menntamálaráðherratíð Magnúsar Torfa Ólafssonar á fyrstu árum áttunda áratugarins. Þær eru því yngri en svo að ég hafi kynnst þeim í skóla.

Einn þeirra sem skrifaði mér eftir færslurnar í gær sagðist hafa notið leiðsagnar frábærs kennara í setningafræði. Sá hefði hamrað hana inn í hug nemandans. Hann hefði meðal annars kennt rökræna kommusetningu, t.d. í dagsetningum. Að skrifa fimmtudagurinn, 28.10.2010, væri setningafræðilega þannig, að vikudagurinn væri frumlag, en dagsetningin viðurlag.