4.10.2010

Mánudagur, 04. 10. 10.

Dapurlegt er að verða vitni að því í sjónvarpi, hvernig ástandið er innan alþingis og á Austurvelli. Þegar þetta er skrifað er Þór Saari að flytja ræðu. Hann talar í sama dúr og og alla tíð, niður til samstarfsmanna sinna á þingi, en hann lítur greinilega þannig á, að hann sé meiri og betri en þeir. Þá ræðst hann á forseta þingsins fyrir, að settur ríkissaksóknari hafi ákveðið að ákæra níumenninga, sem réðust á þingið í desember 2008. Taldi hann þeirra bíða lífstíðardóm. Sýndi þess vel, hve lítt honum getur verið annt um sannleikann, þingmanninum.

Mikill munur var á málflutningi Jóhönnu Sigurðardóttur annars vegar og Bjarna Benediktssonar hins vegar.

Jóhanna áttar sig greinilega á því, að hennar tími er liðinn. Hún er að búa sig undir að finna útleið, að minnsta kosti fyrir sjálfa sig ef ekki ríkisstjórnina. Hafi tími Jóhönnu í íslenskum stjórnmálum verið fyrri hluta árs 2009, biðst hún nú vægðar með því að lýsa vilja til samstarfs við alla. 

Bjarni lagði áherslu á að skýra allt annars konar stefnu og tök á landsmálum en fylgt hefur verið af ríkisstjórninni. Hann bendir á, að ríkisstjórnin bjóði kerfislausnir með því að benda á opinbera sýslunarmenn eins og nú umboðsmann skuldara í stað þess að skapa hinar almennu aðstæður, sem gera fólki kleift að vinna sig úr út vandanum.

Þá markaði tímamót í stjórnmálaumræðum, að Steingrímur J. sagðist ætla að tala um annað en stjórnarandstöðuna, hann sér með öðrum orðum ekki lengur hag af því að flytja skammir um Sjálfstæðisflokkinn.

Tímabært var fyrir lögregluna að setja upp grindur til mannfjöldastjórnurnar umhverfis alþingishúsið. Með slíkum ráðstöfunum er dregið úr líkum á líkamstjóni vegna átaka.