26.10.2010

Þriðjudagur, 26. 10. 10.

Skrifaði í dag pistil á síðuna mína um deilur innan ESB um refsiaðgerðir gegn ríkjum, sem skorti aga við stjórn fjármála sinna. Undir þennan aga þurfum við að ganga, ef samþykkt er að ganga í ESB. Íslendingar yrðu skyldir til að undirgangast allar breytingar á Lissabon-sáttmálanum og hann sjálfan möglunarlaust við aðild að ESB. Svo segja menn, að aðild auki fullveldi okkar og svigrúm til sjálfstæðra ákvarðana. Ef eitthvað er tóm vitleysa er það þetta.

Össur Skarphéðinsson segir, að aðild að ESB muni stórauka fjárfestingar frá ESB-ríkjum hér á landi. Hann hefur ekkert fyrir sér í því efni. Allar mikilvægustu fjárfestingar hér hafa verið frá Sviss, utan ESB, Bandaríkjunum og Kanada. Evrópsk fyrirtæki eiga auðveldara með að fjárfesta hér en þessi fyrirtæki. Þau hafa hins vegar ekki sýnt því áhuga fyrir utan norska Elkem, sem á járnblendiverksmiðjuna.

Þessi ummæli Össurar byggjast á sömu óskhyggju og þeirri, að Samfylkingin eigi aðeins viðhlæjendur innan Orkuveitu Reykjavíkur eftir fjöldauppsagnir þar. Hafa evrópskir fjárfestar áhuga  á að nýta sér orku frá orkuveitunni? Þeir þora að minnsta kosti ekki að gefa sig fram, eftir að ríkisstjórnin hefur látið hvern hóp lögfræðinga eftir annan leita að leiðum til að halda „skúffu-fyrirtæki“ frá því að fjárfesta í Straumsvík.

Hver er atvinnustefna ASÍ og ríkisstjórnarinnar? Ekkert svar er til við því. Hið einkennilega er, að stjórnendum Reykjavikurborgar úr Besta flokknum og Samfylkingu er líka alveg sama.