6.10.2010

Miðvikudagur, 06. 10. 10.

Í dag ræddi ég við Eið Guðnason, fyrrverandi ráðherra og sendiherra, í þætti mínum á ÍNN. Við ræddum um stjórnmálaástandið en einkum um fjölmiðla, enda heldur Eiður úti vefsíðu um efnistök þeirra og málfar. Síðan hefur vakið verðskuldaða athygli, enda er Eiður ómyrkur í máli, ef svo ber undir.

Steingrímur J. Sigfússon var í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld. Hann er hættur að bölsótast í garð sjálfstæðismanna. Furðulegt er að heyra hann tala á þann veg, að nú sé ekki um annað að ræða í stjórnmálum en taka höndum saman við stjórnarandstöðuna. Að honum skuli detta í hug, að sjálfstæðismenn séu ginnkeyptir fyrir samstarfi við Jóhönnu og Steingrím J. eftir það, sem á undan er gengið, staðfestir aðeins enn og aftur, hve ósýnt Steingrími J. er um að horfast í augu við hluti, eins og þeir eru. Hann virðist halda, að stjórnmál snúist um að slá um sig með mælsku og sjálfshóli.