21.10.2010

Fimmtudagur, 21. 10. 10.

Umræðurnar um að halda kristilegu efni utan leikskóla og grunnskóla sýna, að yfirvöld menntamála í Reykjavík hafa ekki hugmynd um valdsvið sitt. Vilji þau ýta þessu efni út úr skólunum, verða þau að njóta stuðnings menntamálaráðherra, sem skrifar undir námskrár eins og reglugerðir. Það ver að fara eftir því, sem í þeim stendur við kennslu, bæði leikskólum og grunnskólum hafa verið settar námskrár.

Haldi mannréttindaráð Reykjavíkurborgar, að það geti með einhliða ákvörðun sinni gengið gegn námskrám eða hlutast til um innra starf í skólum, sýnir það annað hvort ótrúlegan hroka eða dæmalausa vanþekkingu. Af umræðunum virðist ljóst, að um sé að ræða sambland af þessu tvennu á bakvið málatilbúnaðinn hjá fulltrúum Besta flokksins og Samfylkingarinnar.

Ríkisendurskoðun hefur gert athugasemdir við fjárveitingar úr menntamálaráðuneytinu til tveggja skóla, Keilis á Keflavíkurflugvelli, og Hraðbrautar. Í DV hefur þessum athugasemdum verið breytt í árásir á Ólaf H. Johnson, stjórnanda og eiganda Hraðbrautar.  Skólinn tekur við fé, sem ráðuneytið veitir samkvæmt samningi, eftirlitsskylda með framkvæmd samningsins hvílir á menntamálaráðuneytinu, sem jafnframt gefur grænt ljós á greiðslur úr ríkissjóði.

Ekki er grunlaust um, að andstæðingar einkarekstrar í stjórnaflokkunum ætli að nota niðurstöðu ríkisendurskoðunar til að bregða fæti fyrir Hraðbrautina. Ætti þá ekki líka að loka menntamálaráðuneytinu?