30.10.2010

Laugardagur 30. 10. 10.

Ég skrifaði í dag leiðara á evropuvaktin.is, þar sem ég velti því fyrir mér, hvort einhverjum detti í raun og veru í hug, að Íslendingar vilji afsala landi sínu stöðu strandríkis að alþjóðalögum með aðild að Evrópusambandinu. Augljóst er af deilunum um veiðikvóta á makríl, að réttarstaða strandríkis ræður úrslitum um áhrif á ákvarðanir um skiptingu kvótans. Varla dettur nokkrum stjórnmála- eða embættismanni í hug, að unnt verði að semja um undanþágu á þann veg, að Ísland njóti réttarstöðu strandríkis eftir ESB-aðild?

Tryggvi Gíslason, fyrrverandi skólameistari og núverandi frambjóðandi til stjórnlagaþings, segir einhvers staðar í kynningu á framboði sínu að ég sé á móti því að fleiri en stjórnmálamenn eða einhver elíta komi að tillögugerð um nýja stjórnarskrá. Ég sé þess vegna andvígur stjórnlagaþingi. Ég veit ekki hvaðan Tryggvi hefur fengið þessa flugu í höfuðið. Mér finnst sjálfsagt að sem flestir láti ljós sitt skína um efni stjórnarskrárinnar. Henni þarf að breyta, til dæmis 26. gr. hennar um málskotsrétt forseta Íslands.

Að 523 bjóði sig fram til stjórnlagaþings sýnir mikinn áhuga á málinu. Að sjálfsögðu er ekki útilokað að á stjórnlagaþinginu verði samstaða um svo snilldarlega gerð af stjórnarskrá, að frumvarp um hana sigli hraðbyri fyrir alþingi og þaðan til þjóðarinnar í þingkosningum.

Árið 2001 boðaði R-listinn til almennrar atkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Látið var mikið með atkvæðagreiðsluna. Hún markaði tímamót stjórnarháttum í Reykjavík og varðandi flugvöllinn. Nú tæpum áratug síðar blasir við öllum, að atkvæðagreiðslan var í raun marklaus, af því að engin pólitísk forysta var í borgarstjórn til að fylgja henni eftir.  Aðdragandi að stjórnlagaþingi er á þann veg og hlutverk þess eðlis að líklega verður árangur með því að halda sambærilegur við árangurinn af atkvæðagreiðslunni um Reykjavíkurflugvöll.

Ég hitti frambjóðanda í morgun sem sagði mér fjögurra stafa númerið sem ég ætti að skrifa, ef ég vildi kjósa hann. Tillaga kom fram um að hann fengi sér svartan bol og léti skrá númerið á hann, síðan léti hann taka af sér mynd þar sem horfði í myndavélina og sneri sér síðan og léti taka af sér vangamynd.