22.10.2010

Föstudagur, 22. 10. 10.

Um hádegisbilið var ég við Grand hotel, þar sem Slysavarnafélagið Landsbjörg tók formlega í notkun nýjan svæðisstjórnarbíl á svæði 1. Bíllinn nefnist Björninn og sögðu björgunarsveitarmenn mér, að það væri í höfuðið á mér. Þótti mér það mikill og óvæntur heiður. Hann má rekja til þess, að skömmu áður en ég lét af embætti dómsmálaráðherra sneru forystumenn björgunarsveita sér til mín og sögðu einstakt færi gefast til að kaupa bíl til að gegna hlutverki stjórnstöðvar á hjólum. Ákvað ég að hluta af ráðstöfunarfé dómsmálaráðherra skyldi varið til að gera sveitunum kleift að eignast farkostinn. Af mikilli alúð, fórnfýsi og útsjónarsemi björgunarsveitarmanna hefur bílnum nú verið breytt í hátæknimiðstöð á sviði leitar, björgunar og fjarskipta. Ég óska þeim, sem að þessu verki hafa komið til hamingju með árangurinn og velfarnaðar í mikilvægum störfum þeirra.

Síðdegis ókum við Gunnar Eyjólfsson í Skálholt, þar sem við verðum með qi gong kyrrðardaga fram á sunnudag.