25.10.2010

Mánudagur, 25. 10. 10.

Í dag var sagt frá því í fréttatíma RÚV eins og um stórfrétt væri að ræða, að Össur Skarphéðinsson hefði sagt frá því í morgunþætti á rás 2, að skjöl í utanríkisráðuneytinu sýndu, að rætt hefði verið við íslenska embættismenn um stríðsaðgerðir í Írak, áður en þær hófust í mars 2003. Spyrja má: Hver er fréttin? Að til séu skjöl um þessar viðræður? Varla hefur einhver haldið, að bandarískir eða breskir eða jafnvel franskir embættismenn hér á landi eða annars staðar hefðu ekki rætt við embættismenn í íslensku utanríkisþjónustunni um þetta pólitíska álitaefni?

Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, sagði á RÚV síðar í dag, að hann mundi beita sér fyrir rannsókn á þessum gögnum. 

Fyrir innrásina í Írak var látið í verði vaka, að þar væri að finna kjarnorkuvopn og efnavopn. Leyniþjónustumenn voru bornir fyrir þessu. Síðar hefur komið í ljós, að hættan af slíkum vopnum í höndum Saddams Husseins var orðum aukin, þótt vitað væri, að hann hefði beitt efnavopnum.

Séu einhver gögn til hér á landi, sem geti varpað ljósi á þessar umræður í aðdraganda stríðsins, ber að fagna birtingu þeirra.

Ég var utan ríkisstjórnar fram að kosningum vorið 2003 en sat þá í utanríkismálanefnd alþingis og minnist þess, að þar kom Íraksmálið til umræðu og gerð var grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar. Skyldu gögnin varpa öðru ljósi á stöðu Íslands en grein var frá í utanríkismálanefnd?

Um leið og gögn utanríkisráðuneytisins eru skoðuð, ætti utanríkismálanefnd alþingi að beita sér fyrir því, að tekið sé saman í skýrslu, hvað íslenskir stjórnmálamenn sögðu í fjölmiðlum um Íraksstríðið í aðdraganda þess og fram að þingkosningum í maí 2003.