15.10.2010

Föstudagur, 15. 10. 10.

Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, forstjóri Dagsbrúnar og útsendari Baugsmanna við stofnun fríblaða í Kaupmannahöfn og Boston  og að auki við kaup á prentsmiðju í Bretlandi, er tekinn til við að skrifa um, hvernig Íslendingar eigi að haga fjárfestingu í íbúðarhúsnæði.  Rétt er að geta þess, að blöðin í Kaupmannahöfn og Boston auk prentsmiðjunnar í Bretlandi skiluðu Baugsmönnum ekki öðru en skuldum.

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins birtist á dögunum heilsíðu grein eftir Gunnar Smára um húsnæðismál. Gerð var athugasemd við hana í leiðara blaðsins. Í dag skrifar Gunnar Smári þar skammargrein um Davíð Oddsson auk þess að víkja óvildarorðum að mér og einhverjum fleirum. Til marks um, hve málefnalegur Gunnar Smári er, má vitna í þessi orð hans um Davíð „hef ég talið það blessun í lífi mínu að Davíð Oddsson hafi heiðrað mig með óvinskap sínum og óvild. Þótt ónot hans geti verið hvimleið sýnist mér vinskapur hans banvænn.“

Gunnar Smári nefnir engin dæmi um, hvar Davíð hafi vikið að honum af óvild. Hann gerði það ekki í leiðaranum, sem Gunnar Smári mótmælir af þessum ofsa. Um hitt eru fjölmörg dæmi frá síðustu árum, að Gunnar Smári hafi hallmælt Davíð og embættisverkum hans. Þegar rætt var um samþjöppun á fjölmiðlamarkaði síðla árs 2003 og Davíð efaðist um, að hinir ný-einkavæddu bankar væru reknir af nógu mikill forsjálni, ritaði Gunnar Smári grein um, að kannski ætti hann bara að flýja til Norður-Kóreu. Skyldu Baugsmenn nú vilja, að hann hefði látið verða af því í stað þess að stofna til vináttu við þá?