20.10.2010

Miðvikudagur, 20. 10. 10

Í dag ræddi ég við Ara Kristin Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík (HR), í þætti mínum á ÍNN. Ræddum við málefni skólans og háskólastigsins almennt. Eftir þáttinn er ég enn sannfærðari en áður um óréttmæti þess, sem Guðmundur Andri Thorsson sagði í Fréttablaðinu á dögunum, þegar hann talaði um Háskólann í Reykjavík sem „svokallaðan“ háskóla og fór háðulegum orðum um 3.000 nemendur skólans og rúmlega 500 starfsmenn.

Í dag birtist grein í Fréttablaðinu eftir Ingu Dóru Sigfúsdóttur, sem starfaði við HR en hætti þar, þegar lýðheilsudeild var aflögð vegna sparnaðar. Grein sína ritar Inga Dóra til að mótmæla því, að Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherr, hafi sagt rangt frá samtali þeirra, þegar Inga Dóra heimsótti Katrínu í ráðuneytinu.

Eitt er, að ráðherra segi opinberlega frá því, sem fram fer á fundi hans með einstaklingi í viðtalsheimsókn, annað að ráðherrann hafi rangt eftir viðmælanda sínum. Ég veit ekki, hve mörg hundruð manna hittu mig í almennum viðtalstíma sem menntamálaráðherra. Að ég segði frá komu þeirra opinberlega, nafngreindi og vitnaði í orð þeirra kom mér aldrei til hugar.