14.10.2010

Fimmtudagur, 14. 10. 10.

Hneykslan fréttastofu RÚV á því, að Bjarni Harðarson hafi verið ráðinn upplýsingafulltrúi í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu er langt úr hófi. Minnt er á ávirðingar, sem urðu til þess, að hann sagði af sér þingmennsku auk þess sem hamrað er á því, að hann hafi skipt um stjórnmálaflokk. Hvorugt skiptir máli varðandi hæfni hans til að sinna upplýsingamálum fyrir Jón Bjarnason.  Það er ekki á hverjum degi, sem fréttastofan tekur sér fyrir hendur að birta kafla úr ævisögu þeirra, sem valdir eru til opinberra starfa.  Yfirleitt er það ekki gert, nema fréttastofunni sé í nöp við þann, sem hlut á að máli. Merkilegt er, að fréttastofan skuli ekki geta þess, að Bjarni er einarður andstæðingur þess, að Ísland verði aðili að ESB.

Líklegt er, að andstaða Bjarna við ESB sé meginástæðan fyrir því, að fréttastofa RÚV tekur hann fyrir á þann veg, sem hefur verið gert. Fréttamönnum RÚV, sem hallir eru undir ESB-aðild, finnst óþægilegt, að þurfa að leita frétta hjá manni með skoðanir Bjarna á ESB. Mest mun einmitt reyna á framgang mála á verksviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Gagnrýnin á ráðningu Bjarna í fréttatímum RÚV dregur ekki aðeins athygli að ESB-skoðunum Bjarna heldur einnig vaxandi spennu í samskiptum samfylkingarfólks og vinstri-grænna. Gagnrýnin á ráðningu Bjarna er til marks um, að þolinmæði af hálfu Samfylkingarinnar er að minnka. Brugðið er sterkara ljósi en áður á mál, sem eru til þess fallin að breikka bilið milli flokkana og auðvelda stjórnarandstæðingum innan Samfylkingarinnar að skýra afstöðu sína.