10.10.2010

Sunnudagur, 10. 10. 10.

Fréttir af ríkisstjórnarsamstarfinu verða sífellt furðulegri. Uppákomur í kringum nýja ráðherrann, Ögmund Jónasson, sem átti að tryggja, að meirihluti yrði fyrir fjárlagafrumvarpinu, eru undarlegastar. Hann hefur greinilega ruglað Jóhönnu Sigurðardóttur í ríminu með því að gerast róttækastur ráðherra í stuðningi við hugmyndir um niðurfærslu lána. Jóhanna þolir slík yfirboð ekki og hefur því slegist í lið með Ögmundi í óþökk Steingríms J. Sigfússonar.

Sagt er frá því á dv.is 10. október, að Ögmundur hafi kallað Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, fyrir sig og krafið hann svara vegna ummæla Valtýs í DV, sem setti feminista innan raða vinstri-grænna úr skorðum. Mislíkar Ögmundi svo við orð Valtýs, að hann segist íhuga að skipa nýjan saksóknara vegna kynferðisbrota, sem á væntanlega að endurspegla skoðanir Ögmundar á því, hvernig eigi að ákæra í slíkum málum.

Ég trúði varla mínum eigin augum, þegar ég las þetta. Slík afskipti ráðherra af störfum ríkissaksóknara tel ég algjörlega á skjön við góða stjórnsýslu og raunar landslög. Fáum við næst fréttir af því, að Ögmundur kalli dómara fyrir sig, af því að hann sættir sig ekki við dómsorð hans?