11.10.2010

Mánudagur, 11. 10. 10.

Með ólíkindum er, að enginn fjölmiðill skuli fylgja eftir fréttinni um að Ögmundur Jónasson, dómsmálaráðherra, hafi kallað Valtý Sigurðsson, ríkissaksóknara, á teppið til að skamma hann að ósk feminista í röðum vinstri-grænna og krefjast af honum skýrslu um embættisfærslu hans og ummæli. Þetta er einstakt atvik í íslenskri réttarsögu. Ég hef velt fyrir mér, hvernig fjölmiðlamenn hefðu hundelt mig, hefði mér dottið í hug að reyna að hafa áhrif á ákvarðanir ríkissaksóknara á þennan veg.

Mér sýnist á öllu, að óhjákvæmilegt sé að huga að nýjum farsíma til að nýta sér allt, sem er í boði á því sviði. Orðið farsími nær engan veginn yfir allt það, sem í boði er í hinum nýju fjarskipta- og tölvutækjum. Einn stoltur eigandi sýndi mér á dögunum, að með smáforriti frá Google mætti setja stjörnukort í tækið og jafnan látið það vísa sér leið til stjarnanna.

Ég sá í BBC World í kvöld, að Stephen Fry, leikari, sjónvarpsmaður, rithöfundur og margt annað tók að sér að kynna nýjan farsíma frá Microsoft á blaðamannafundi í London. Honum er ætlað að keppa við síma frá Apple, Google og BlackBerry. Þeir sögðu á BBC, að það væri stórt skref fyrir Stephen Fry að stíga fram á þessum blaðamannafundi, þar sem hann hefði til þessa verið þekktur fyrir aðdáun sína á Apple. Ég heyrði hins vegar ekki betur en menn teldu erfitt fyrir Microsoft að brúa bilið gagnvart þeim, sem þegar hafa kynnt hinn nýja búnað.