1.10.2010

Föstudagur, 01. 10. 10.

Aðförin að þingsetningarathöfninni í dag var sorgleg. Þegar svo er komið, er augljóst að friðsamlegir samskiptahættir eru úr sögunni.  Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tekst ekki að endurvekja þá.

Lögregla átti engan annan kost en að beina forseta, biskupi og öðrum bakdyramegin inn í þingshúsið eftir messuna í Dómkirkjunni. Hitt er annað mál, að lögregla verður að eignast hreyfanlegar grindur, eins og hvarvetna eru notaðar við mannfjöldastjórnun. Þær draga úr hættu á átökum milli lögreglu og aðgerðasinna og minnkar líkur á, að lögregla þurfi að beita  gasi eða öðrum slíkum meðölum.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, flutti ræðu á fjölsóttum fundi í Valhöll. Þar ræddi hann stjórnmálaástandið og aðförina að Geir H. Haarde með því að stefna honum fyrir landsdóm. Taldi Bjarni það enn eitt merkið um vinstra-ofstækið við landstjórnina. Máli Bjarna var vel tekið.

Ríkisstjórnin hefur enga burði til að takast á við stöðu þjóðmála. Hún sér enga aðra kosti en hækka skatta og leggja stein í götu þeirra, sem vilja hefja stórhuga framkvæmdir.