16.8.2002 0:00

Föstudagur 16.8.2002

Eftir fundarhöld síðdegis 15. ágúst fórum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kynnisferð um Stykkishólm að morgni þessa dags og síðan í siglingu út á Breiðafjörð og var það í senn fróðleg og skemmtileg ferð. Síðan ákváðum við Rut að skoða okkur um á Snæfellsnesi og gefa okkur góðan tíma á leiðinni til Reykjavíkur. Ókum við fyrir Snæfellsnes og fengum okkur síðdegiskaffi í Fjöruhúsinu á Hellnum, sem er einstakt veitingahús. Þar hitti ég mann, sem minntist þess, að líklega árið 1934 hefði hann hitt Benedikt Sveinsson, afa minn, og Guðrúnu Pétursdóttur, ömmu mína, á göngu á þessum slóðum á leið til Hólahóla og Dritvikur, en afi minn átti þær jarðir, sem nú eru hluti af þjóðgarðinum. Hann minntist þess einnig, að hann var í hópi unglinga, að Anton Björnsson, móðurbróður minn, 22 ára, skyldi koma að Arnarstapa og kenna heimafólki leikfimi eða fimleika, en vikurflutningaskipið Hilmir sökk á leiðinni, án þess að nokkru sinni hafi fengist viðhlítandi skýring á því, sem gerðist - ef til vill grandaði tundurdufl skipinu, en þetta var í síðari heimsstyrjöldinni.