4.7.2014 20:50

Föstudagur 04. 07. 14

Í franska blaðinu Le Figaro er í dag rætt við Didier Rebut, prófessor í refsirétti. Hann segir að ávallt sé unnt að skjóta máli til hæstaréttar hafi menn rökstuddan grun um að dómarar séu ekki óhlutdrægir og vísar þar til gagnrýni Nicolas Sarkozys á rannsóknardómarana í máli hans. Það sé hins vegar sjaldgæft að hæstiréttur fallist á ósk um að mál sé tekið upp að nýju vegna slíkra atvika vegna þess að „samtryggingarkerfi“ refléxe corporatiste ríki meðal dómara. Í því sambandi beri hins vegar að líta til þess að Evrópudómstóllinn hafi markað skýr fordæmi. Hann vilji að þess sé gætt að enginn þurfi að efast um óhlutdrægni dómarans: „Réttlætið á að ná fram að ganga en það á einnig að virðast hafa náð fram að ganga.“ Prófessorinn segir: „Það er því ekki nauðsynlegt að setja mælitæki í höfuð dómarans, það eitt dugar að menn beri ekki traust til þess að hann hafi verið óhlutdrægur.“

Refléxe corporatiste er hér íslenskað með orðinu „samtryggingarkerfi“. Orðið nær ekki alveg því sem sagt er með orðinu refléxe sem lýsir ósjálfráðum viðbrögðum – korporatisma má líkja við samtryggingu. 

Frétt í Morgunblaðinu í dag um hvernig ríkisendurskoðun stóð að athugun á töku ákvörðunar um að Seðlabanki Íslands greiddi lögmannskostnað Más Guðmundssonar seðlabankastjóra vegna launadeilu hans við bankann ýtir undir þá skoðun að niðurstaðan í skýrslu ríkisendurskoðunar kunni að mótast af refléxe corporatiste.

Fréttastofa ríkisútvarpsins hélt í dag áfram að skýra fyrir hlustendum og áhorfendum hvaða hælisleitandi hefði verið „eftirlýstur“ á vefsíðu innanríkisráðuneytisins hinn 18. júní. Nú er ljóst að það var ekki skjólstæðingur Katrínar Oddsdóttur lögfræðings sem sagt var frá í ríkisútvarpinu í gær (og einnig hér á síðunni). Heldur einhvers annars lögfræðings og sá hælisleitandi var í raun ekki eftirlýstur, hefur þetta orð verið afmáð af vefsíðu ráðuneytisins. Hljóta allir að fagna að botn sé kominn í málið eftir þrotlausa rannsóknarblaðamennsku fréttastofunnar, aðstoð tveggja lögfræðinga og viðbrögð ráðuneytisins.