26.7.2014

Snorri Sturluson og afmæli stjórnarskrár Noregs 1814-2014

Snorrastofa 26. júlí 2014.

Fyrir hönd Snorrastofu býð ég ykkur öll velkomin til þessarar athafnar. Til hennar er stofnað í því skyni að minna á áhrif Snorra Sturlusonar á sjálfstæðisandann sem fór um Noreg í ársbyrjun 1814 þegar hinu gamla Noregsríki var sundrað með friðargerðinni í Kiel við lyktir Napóleonsstyrjaldanna.

Þá skildu leiðir milli Íslendinga og Norðmanna. Stjórnskipulegt samband þjóðanna rofnaði en það mátti rekja allt til daga Snorra og var bundið í sáttmála rúmum 20 árum eftir dauða hans.

Ísland, Færeyjar og Grænland fylgdu Danmörku eins og ekkert væri sjálfsagðara þegar Danir voru neyddir til að afhenda Svíum Noreg.

Norðmenn risu upp sem einn maður, land sitt áttu þeir sjálfir, það skyldi hvorki keypt né selt, segir sagnfræðingurinn Þorkell Jóhannesson og bætir við:

„Stjórnarbylting Norðmanna er nú höfðu hrist af sér einveldisokið og eignazt glæsilegustu minningu sögu sinnar um þjóðareiningu og endurvakningu bældra krafta, virðist ekki hafa hreyft við nokkurri lifandi sál á Íslandi.“[i]

Það er ekki síst þessi staðreynd um deyfð og andvaraleysi Íslendinga sem veldur því að forvitnilegra er fyrir okkur en ella að kynnast þeim krafti sem einkenndi framgöngu Norðmanna fyrir 200 árum.

Hinn þjóðlegi norski kraftur hefur meðal annars verið rakinn til áhrifa frá Snorra Sturlusyni og því er Reykholt kjörinn minningarstaður í þessu tilviki eins og svo mörgum sem snerta hinar menningarlegu og sögulegu norrænu rætur.

Snorrastofa er safn um Snorra Sturluson og sögu Reykholts. Stofnunin stuðlar að rannsóknum og veitir fræðslu um norræna sögu og bókmenntir sem tengjast Snorra Sturlusyni og Reykholti.

Mér er sérstök ánægja að bjóða hingað velkomna forseta stórþingsins, Olemic Thommessen, og forseta alþingis, Einar K. Guðfinnsson. Þátttaka þeirra í dagskrá okkar er virðuleg og vel metin staðfesting á tengslunum milli hins fræðilega eða óáþreifanlega og veruleikans eins og hann birtist í viðfangsefnum stjórnmálamanna á líðandi stundu. Ég þakka fyrirlesurum erindin sem hér verða flutt og sendiherra Noregs á Íslandi áhuga hans á að þessi viðburður okkar yrði hér í dag.

*

Hér verður engin einhlít skýring gefin á deyfð Íslendinga árið 1814. Þeir höfðu nýlega látið yfir sig ganga að danskur ævintýramaður, Jörgen Jörgensen skipherra, tók að sér í þjónustu bresks sápukaupmanns stjórn landsins og lýsti yfir sjálfstæði þess í rúma tvo mánuði árið 1809. Stjórnaði hann „hinu sjálfstæða lýðveldi í skjóli þöguls samþykkis landsmanna án teljandi vandræða,“ segir Anna Agnarsdóttir sagnfræðingur í nýrri Sögu Íslands[ii]

Það var ekki fyrr en undir miðja öldina sem sjálfstæðisandinn lét verulega að sér kveða á Íslandi. Danakonungur breytti stjórnskipan ríkis síns og heitar umræður urðu um hver ætti að verða staða Íslands og hins endurreista alþingis. Þá leituðu Íslendingar rótanna í fornum skjölum og fundu fótfestu í „frjálsum sáttmála“ við Noregskonung frá 1264. Íslendingar hétu  að greiða konungi skatt en hann að „halda þeim við íslenzk lög, og að embættismenn skyldu innlendir vera.“

Ísland varð þannig frjálst sambandsland Noregs undir sama konungi en með „stjórnskipan sinni sér í lagi, með löggefandi þingi, er líka hafði dómsvaldið á hendi“.  Árið 1380 varð sami konungur í báðum ríkjunum, Noregi og Danmörku, og unnu Íslendingar Ólafi konungi Hákonarsyni hollustueið árið 1382.  Var það skilningur Íslendinga að upp frá því hefði Ísland orðið sambandsland ríkjanna tveggja án nokkurra breytinga á stjórnarforminu frá 1264.

Konungar voru hylltir sér í lagi á Íslandi eins og í Noregi.

Til að ræða stöðu Íslands innan danska ríkisins var boðað til þjóðfundar í Reykjavík árið 1851. Í álitsgerð sem þar var samin segir að á seinni tímum hafi þess fundist spor að Danir litu á Ísland sem nýlendu frá Noregi. Hvað sem því liði að landnámsmenn á Íslandi hefðu komið frá Noregi hefðu Íslendingar búið við frelsi frá upphafi og þrátt fyrir samning við Noregskonung 1264 hefði Ísland þó verið „ein heild út af fyrir sig, jafnsnjallt Noregi í öllum greinum.“

Íslendingar töldu stöðu lands síns sem sambandslands við konung ekki breytast þótt hann yrði einvaldur 1662. Þeir viðurkenndu að árið 1814 hefði konungur neyðst til að „sleppa Noregi“ en hann hefði haldið eftir „hinu forna sambandslandi Noregs Íslandi“ en við hvorugt þetta hefði staða Íslands breyst í sambandi við ríkið „það hélt réttindum sínum eptir sem áður, og varð á engan hátt háð neinum öðrum hlutum einveldisins“.[iii]

Vegna sáttmálans við Noregskonung stóðu Íslendingar fast á þeim rétti sínum að Danakonungur gæti ekki ákveðið stjórnarhætti á Íslandi án samráðs við þegna sína þar. Gekk það eftir að lokum.

*

Í friðarsáttmála Svía og Dana í Kiel frá 14. janúar 1814 er sérstaklega tekið fram í 4. grein að Grænland, Færeyjar og Ísland fylgi ekki með Noregi í hendur Svíum. Sú skoðun hefur ríkt að þetta ákvæði sýni að sænski samningamaðurinn hafi látið leika á sig, hann hafi ekki vitað að gömlu skattlöndin tilheyrðu Noregi og þess vegna fallist fúslega á ósk Dana um að setja þetta ákvæði í 4. greinina.

Á síðari tímum hefur sú skoðun þótt sennilegri að Bretar hafi átt mun meiri þátt í efni þessa samnings en áður var talið. Þeir hafi ekki talið þjóna hagsmunum sínum að veldi Svía teygði sig út á breskt áhrifasvæði á Norður-Atlantshafi. Auk þess hafi Karl Jóhann Svíakonungur ekki haft áhuga á að veikja ríkisheildina frá landfræðilegu og hernaðarlegu sjónarmiði með því að eyjarnar féllu undir hana. Svíar hafi aldrei sýnt áhuga á að eignast eyjarnar.[iv]

*

Góðir áheyrendur!

Hér skal þessi saga ekki rakin frekar.  Á þessum árum eins og hinum síðari urðu þjóðir Norðurlanda að taka mið af hagsmunum stórvelda. Kielarsáttmálinn var friðargerð við lyktir  hrikalegra átaka í Evrópu.

Fyrir 200 árum töldu Bretar ekki þjóna hagsmunum sínum að Svíar teygðu sig vestar en til Noregs og í samræmi við hefðir allt frá tímum víkinganna sneru Svíar sér frekar í austur en vestur.

Nú er öldin önnur. Snemma á þessu ári leiddu norskir herforingjar flugher Svía og raunar einnig Finna til æfinga hér á Íslandi, undir merkjum NATO og með góðu samþykki Breta. Markaði þessi æfing þáttaskil í fleiri en einu tilliti í samskiptum Norðurlanda og kann að verða litið til hennar sem sögulegs stórviðburðar þegar fram líða stundir þótt við teljum hana lið í eðlilegri þróun nánara samstarfs á öllum sviðum.

Hér í Reykholti verður saga Snorra Sturlusonar ljóslifandi fyrir augum okkar. Með því að leggja rækt við arfinn frá honum auðveldum við skilning á samtímaviðburðum, þeir birtast okkur gjarnan í nýju og oft bjartara ljósi.

Það er von Snorrastofu við eigum fróðlega og ánægjulega stund saman hér í dag.

 

 


 


[i] Þorkell Jóhannesson Saga Íslendinga VII bindi bls. 331.

[ii] Anna Agnarsdóttir: Saga Íslands IX. bindi bls. 85

[iii] Nefndarálit í stjórnarskipunarmálinu bls. 496 Tíðindi frá þjóðfundi Íslendinga, Reykjavík 1851

 

[iv] Anna Agnarsdóttir ibid bls. 114