22.7.2014 18:50

Þriðjudagur 22. 07. 14

Í grein í Fréttablaðinu í dag tekur ESB-aðildarsinni sér fyrir hendur að rægja EES-samninginn. Að þetta gerist kemur ekki á óvart.  ESB-aðildarsinnar vilja veg EES-samningsins sem minnstan af því að þeir telja hann þröskuld á leið Íslands inn í ESB.

Þeir gleyma þeirri staðreynd að enginn meirihluti var fyrir aðild að ESB þegar Íslandi bauðst hún sem EFTA-ríki. Hefði verið þrýst á aðild að ESB hefði EES-samningurinn ekki verið gerður. Málið er ekki flóknara en það.

Ég skrifaði um áróðurinn gegn EES-samningnum á Evrópuvaktina í dag eins og lesa má hér. Engu er líkara en ESB-aðildarsinnar telji sig geta rakkað EES-samninginn niður af því að engum hér á landi detti í hug að rifta honum. Þessi afstaða er reist á misskilningi eins og svo margt hjá aðildarsinnum. Að sjálfsögðu kann stöðugur neikvæður áróður þeirra að grafa svo undan samningnum að krafa um uppsögn hans verði að pólitísku umræðuefni.

ESB-aðildarsinnar, gagnrýnendur EES-samningsins úr þeirri átt, verða að svara hve langt þeir vilja ganga gegn þessum samstarfssamningi Íslendinga við ESB. Leggja þeir til að EES-samningnum verði rift? Telja þeir með öllu vonlaust að unnt verði að draga úr lýðræðishallanum vegna samningsins?