Mánudagur 21. 07. 14
Atburðir gerast sem gjörbreyta þróun mála eða afstöðu fólks. Að Rússavinir og aðskilnaðarsinnar í Úkraínu skuli hafa skotið niður farþegaþotu frá Malasíu fimmtudaginn 17. júlí með tæplega 300 manns innanborðs er slíkur atburður. Ekki bætir úr skák að aðskilnaðarsinnarnir sýndu upphaflega tregðu til að hleypa hlutlausum, alþjóðlegum rannsóknarmönnum á vettvang.
Vladimír Pútin Rússlandsforseti situr uppi með endanlega skömm vegna þessa atburðar. Hann hefur leikið mörgum skjöldum vegna þróunar mála í Úkraínu. Hann lék leiki og lét sem rússneski herinn héldi sig frá átökum við Úkraínuher. Pútín sá hins vegar aðskilnaðarsinnum fyrir vopnum og þar á meðal skotflauginni sem send var á loft til að granda flugvél Kænugarðsmanna en lenti á þotunni á leið frá Amsterdam til Kuala Lumpur.
Án hvatningar og að minnsta kosti óbeins stuðnings frá Pútín berjast aðskilnaðarsinnar ekki við hermenn Kænugarðs. Rússlandsforseti er ábyrgðarmaður aðgerða aðskilnaðarsinna . Á meðan hann skiptar þeim ekki að leggja niður vopn berjast þeir áfram og skömm Pútíns vex.
Rúmum sólarhring áður en flugvélin fórst gerðist annar atburður sem markar þáttaskil. Jean-Claude Juncker, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, kynnti þriðjudaginn 15. júlí stefu sína til ársins 2019 og þar á meðal að ESB stækkaði ekki á þeim tíma þótt rætt yrði áfram við ríki sem hefðu átt í aðlögunarviðræðum við ESB.
Viðræðum fulltrúa Íslands og ESB var hætt í janúar 2013 og haustið 2013 afmunstraði utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson viðræðunefnd Íslands og einstaka viðræðuhópa. Íslendingar eiga ekki í neinum viðræðum við ESB. Það verður því ekki rætt við þá næstu fimm árin.
Ný framkvæmdastjórn ESB tekur við í Brussel 31. október 2014. Vikurnar þangað til á ríkisstjórn Íslands að nota til að móta skýra afstöðu um lyktir stöðu Íslands sem umsóknarríkis sem kynnt verði fyrir nýrri framkvæmdastjórn ESB undir forsæti Junckers. Engin rök eru fyrir að skipa sess umsóknarríkis án viðræðna við ESB. Slík staða er í raun svo fráleit að óþarft ætti að vera að deila um að afmá hana.
Á fimm árum mun ESB breytast. Vilji Íslendingar nálgast það í breyttri mynd ber að gera það á grundvelli nýrrar umsóknar sem samþykkt yrði í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en gengið yrði til viðræðna við ráðamenn í Brussel.