Miðvikudagur 09. 07. 14
Öðru hverju má lesa fréttir um það sem nefnt er wi-fi-phobia á erlendum tungum, það er óþol fyrir nettengingu og bylgjum sem henni fylgja. Nýlega var mér sagt frá einstaklingi sem gat ekki sofið í sumargististað án þess að lokað væri á nettengingu að næturlagi. Þetta skapaði öðrum gestum að sjálfsögðu vandræði. Aðrir sofa ekki almennilega nema unnt sé að tengjast netinu í náttstað. Þessi hópur er fjölmennari en hinn sem vill að netið sé aftengt.
Vegna viðskipta og þjónustu við ferðamenn er lykilatriði fyrir þróun ferðaiðnaðarins um land allt að sem best sé hugað að ljósleiðaratengingu. Ljósleiðari var lagður umhverfis landið á níunda áratugnum þegar NATO endurgerði ratsjárkerfið sem nær til Bolafjalls við Bolungarvík og austur til Gunnólfsvíkurfjalls skammt frá Bakkafirði, að Stokksnesi við Hornafjörð og í móðurstöð á Keflavíkurflugvelli. Kostnaður við tengjast þessum ljósleiðarahring er mikill og hærri en ætla mætti í fyrstu. Eitt öflugasta skrefið til að auka á jafnræði fyrirtækja um land allt er skapa jafnan aðgang að netinu.
Það er grátbroslegt að fylgjast með tilraunum fjölmiðlamanna og álitsgjafa til að gera skipan valnefndar vegna skipunar í embætti seðlabankastjóra tortryggilega. Erfitt er að sjá hvaða tilgangi fréttir um þetta þjóna. Það er ekki nokkur leið að færa rök fyrir þeirri skoðun að þeir þrír einstaklingar sem sitja í nefndinni hafi ekki burði til að segja hvaða umsækjendur eru hæfir til að gegna stöðunni. Að halda því fram að hagfræðimenntað fólk sé betur til þess fært en þeir sem þarna koma við sögu þjónar annarlegum tilgangi.