23.7.2014 23:55

Miðvikudagur 23. 07. 14

Árið 1967 þegar ég varð fyrst ráðinn sem blaðamaður á Morgunblaðið var sex daga stríðið háð (5. til 10. júní) milli Ísraela og nágranna þeirra. Þá urðu margir á meginlandi Evrópu hræddir um að ný heimsstyrjöld kynni að hefjast. Rúm 20 ár voru liðin frá lyktum síðari heimsstyrjaldarinnar og vöruskortinum sem henni fylgdi. Fólk tók að hamstra nauðsynjavörur til að vera við öllu búið.

Í tæpa hálfa öld hef ég fylgst náið með gangi alþjóðamála og ekki síst öryggismála. Margt hef ég leitast við að kynna mig til nokkurrar hlítar. Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem reglulega kemur til átaka er jafnsorglegt og illskiljanlegt nú og fyrir hálfri öld. Ekki síst miðað við allan tímann sem varið hefur verið til friðarviðræðna.

Það sem helst hefur breyst er afstaða almennings og stjórnvalda á Vesturlöndum í garð Ísraela. Þeir eru úthrópaðir og sakaðir um að beita ofurefli gegn almennum borgurum og látið er eins og hermenn Hamas-samtakanna beiti leikfangavopnum svo að vitnað sé í kynni í tónlistarþætti í ríkisútvarpinu í dag – meira að segja í slíkum þáttum nota menn málfrelsið til árása á Ísraela.

Beita verður öllum ráðum til að stöðva átökin. Að samið verði um frið er þó ekki í augsýn nú frekar en fyrri daginn. Það er sagður markverður árangur fyrir Hamas að flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum og annars staðar telja Ben Gurion-flugvöll við Tel Aviv of hættulegan fyrir millilandaflugvélar. Við það skapast annars konar þrýstingur á Ísraelsstjórn en áður. Lokun vallarins sýnir að Hamas ræður yfir öðru en leikfangavopnum.

Í átökunum nú hafa Ísraelar fundið mikil göng og bækistöðvar Hamas undir yfirborði jarðar. Þar hafast liðsmenn samtakanna við þegar Ísraelar gera árásir á berskjaldaða almenna borgara ofan jarðar. Um göngin má laumast inn í Ísrael, meðal annars til mannrána. Fyrir einn ísraelskan hermann er unnt að semja um frelsi fyrir hundruð ef ekki þúsund Palestínumenn í haldi Ísraela.