28.7.2014 21:40

Mánudagur 28. 07. 14

Stjórnmálabaráttan liggur í láginni. Þeim mun meiri athygli beinist að köldu stríði Morgunblaðsins  og ríkisútvarpsins. Raunar er sérkennilegt að slíkt stríð skuli háð. Annars vegar er dagblað í einkaeign þar sem hluthafar eiga síðasta orð um stjórnendur, stefnu og markmið hins vegar er hlutafélag í ríkiseigu sem gengur að nefskatti vísum og hefur lögbundnar skyldur.

Árum saman hafa menn á þessum fjölmiðlum nálgast viðfangsefni fréttamiðlunar hver með sínum hætti. Bilið hefur hins vegar aukist hin síðari ár vegna þess að pólitísku rétttrúnaður hefur náð undirtökunum á ríkisútvarpinu í fréttum og þáttum um málefni líðandi stundar og menningarmál. Fréttir ríkisútvarpsins minna æ oftar á fundargerð neytenda- eða félagsmálasamtaka. Viðskiptafréttir eiga ekki upp á pallborðið í Efstaleiti, viðmótið í garð útgerðamanna er kuldalegt og oft gætir tortryggni í garð þeirra og annarra atvinnurekenda.

Nýjasta atvikið í köldu stríði miðlanna tveggja felst í viðleitni ríkisútvarpsins til að breyta orðinu múlatti í skammaryrði. Það var notaði innan sviga í Reykjavíkurbréfi í Morgunblaðinu laugardaginn 26. júlí til að skýra fyrir lesendum uppruna Baracks Obama Bandaríkjaforseta.

Sé flett í orðabók er ekkert sem bendir til að í því felist niðurlæging að nota orðið múlatti hvorki um Bandaríkjaforseta né nokkurn annan mann. Ríkisútvarpið greip til sama ráðs og oft áður að kalla á prófessor sér til aðstoðar en innan háskóla ræður víða pólitískur rétttrúnaður. Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, sagði hugtakið múlatti almennt ekki notað, sér þætti það niðrandi:

„Þegar ég sá þetta hugtak notað nú um helgina, þá fannst mér svolítið eins og ég væri að sjá draug úr fortíðinni. Og þetta hugtak, það gengur út frá þeirri hugmynd að við séum með tvo alveg hreina kynþætti, sem síðan blandast og þá verður úr manneskja sem kallast múlatti.“

Hugtakið sé reist á vafasamri hugmynd um að mannkyn flokkist í aðskilda kynþætti: „að við getum flokkað margbreytileikann niður í kynþætti - svartan og hvítan. Og einhvers konar blöndu af þessum tveimur kynþáttum,“ sagði prófessorinn í hádegisfréttum mánudaginn 28. júlí.