13.7.2014 18:50

Sunnudagur 13. 07. 14

Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og dálkahöfundur í Fréttablaðinu, segir á Facebook-síðu sinni í dag að samstarfsmenn Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors við Háskóla Íslands, hafi lekið efni sálfræðiskýrslna, þar sem þeir sjálfir kvarta undan honum, í fjölmiðla“.

Undanfarið hafa blaðamenn DV undir ritstjórn Reynis Traustasonar farið hamförum yfir því að til fjölmiðla hafi verið lekið minnisblaði varðandi nafngreindan hælisleitanda. „Lekamálið“ hefur mánuðum saman verið til rannsóknar hjá lögreglu að ósk saksóknara. Hneykslunarfréttir DV vegna „lekamálsins“ eru fleiri en tölu verður á komið og krafist er aðgerða gegn þeim sem taldir eru bera ábyrgð á lekanum.

Eftir að „sálfræðiskýrslunni“ var lekið úr Háskóla Íslands hefur DV birt efni úr henni án þess að nokkur orð hafi fallið um að rannsaka beri hver hafi staðið að lekanum eða óeðlilegt sé að niðurstöðum sé lekið úr sálfræðiskýrslu. Því má velta fyrir sér hvort sé alvarlegra að leka minnisblaði um stöðu máls í ráðuneyti eða skýrslu með niðurstöðum sálfræðings. Á dv.is sagði föstudaginn 11. júlí:

„Starfsmönnum stjórnmálafræðideildar var boðið í viðtal við Einar Gylfa Jónsson sálfræðing og mikill meirihluti þeirra kvartaði undan yfirgangi af hálfu Hannesar. Í niðurstöðum skýrslunnar er staðhæft að yfirstjórn háskólans beri lagaleg skylda til að bregðast við framkomu prófessorsins, enda sé ástandið í stjórnmálafræðideild óviðunandi.“

Persónulegri geta ávirðingar sem raktar eru til trúnaðarskýrslu nafngreinds sálfræðings varla verið og þar að auki er sagt að sálfræðingurinn hafi tekið sig til og dregið lögfræðilega ályktun um skyldur yfirstjórnar Háskóla Íslands af rannóknum sínum.

Það leynist ekki lesanda skrifanna undir hatti ritstjóra DV að með jafnmikilli velþóknun er fjallað um lekann úr sálfræðiskýrslunni úr Háskóla Íslands og fyrirlitningu í garð þeirra sem blaðið telur að lekið hafi minnisblaðinu um hælisleitandann.

Illt er að tala tungum tveim og mæla sitt með hvorri.