27.7.2014 22:30

Sunnudagur 27. 07. 14

Reykholtshátíðinni lauk í dag með messu og tónleikum. Hátíðin heppnaðist vel og ánægjulegt var að Olemic Thommassen, forseti norska stórþingsins, og Einar K. Guðfinnsson, forseti alþingis, skyldu taka þátt í málþingi Snorrastofu innan ramma hátíðarinnar. Til málþingsins var efnt til að minnast áhrifa frá Snorra Sturlusyni á stjórnarskrá Noregs frá 1814. Stórþingsforsetinn er áhugamaður um norræna samvinnu og gerir sér glögga grein fyrir gildi hins sameiginlega menningararfs fyrir hana.

Í kvöld var sjónvarpsþáttur um Brynju Benediktsdóttur (1938 til 2008), leikstjóra og leikkonu. Var meðal annars drepið á deilurnar um breytinguna á sal Þjóðleikhússins undir lok níunda áratugarins. Ólíklegt er að nokkrum dytti í hug að bylta salnum á þann hátt nú á tímum. Brynja var meðal reyndra leikara sem gagnrýndu þessa aðför að salnum. Þeir voru í minnihluta og ráð þeirra því miður höfð að engu.