3.7.2014 19:00

Fimmtudagur 03. 07. 14

Í dag skrifaði ég nokkur minningarorð um góðan vin, Kenneth East, í Morgunblaðið og má lesa þau hér.

Hér hefur verið vakið máls á kvörtunum Ragnars Aðalsteinssonar hrl. vegna nýrra ákvæða í lögum sem hann telur verða til þess að lögfræðingar hælisleitenda missi spón úr aski sínum vegna samnings innanríkisráðuneytisins við Rauða kross Íslands. Telur Ragnar að hagræðing á þessu sviði skerði mannréttindi hælisleitenda.

Þegar um þetta var fjallað var komist svo að orði að lögfræðingar hælisleitenda störfuðu oft eins og almannatenglar sem ættu greiðan aðgang að fréttastofu ríkisútvarpsins. Réttmæti þessarar staðhæfingar sannaðist í dag þegar helsta frétt ríkisútvarpsins klukkan 18.00 var að Katrín Oddsdóttir, lögmaður hælisleitandans Evelyn Glory Joseph, segði það mjög alvarlegt, að innanríkisráðuneytið héldi því ranglega fram að hælisleitandinn væri sakborningur á flótta undan réttvísinni. Á þann veg túlkaði lögmaðurinn orðið „eftirlýst“ á vefsíðu ráðuneytsins hinn 18. júní. Mögulegt væri að höfða meiðyrðamál vegna slíkra ummæla. Boðaði fréttastofan frekari umræðu um málið í fréttatíma sjónvarps ríkisins klukkan 19.00 þennan sama dag.

Fréttastofan hefur áður flutt fréttir af skjólstæðingum Katrínar Oddsdóttur sem fyrst varð þjóðkunn vegna róttækrar ræðu gegn íslensku stjórnskipulagi á Austurvelli í atburðunum haustið 2008. Katrín starfar nú á lögfræðistofu með Ragnari Aðalsteinssyni.

Lét fréttastofa ríkisútvarpsins þess getið í framhjáhlaupi í dag að lögregla hefði „síðustu mánuði rannsakað meint brot á þagnarskyldu hjá innanríkisráðuneytinu“. Grunur léki á að starfsmaður ráðuneytisins hefði  „lekið til fjölmiðla minnisblaði sem tekið var saman um hælisleitandann Tony Omos, í þeim tilgangi að sverta mannorð hans“.

Yfirbragð fréttar ríkisútvarpsins er að mannorðsmorð á hælisleitendum séu stunduð að undirlagi innanríkisráðuneytisins. Hinir einu sem standi gegn óhæfuverkunum séu hugdjarfir lögfræðingar, heimildarmenn fréttastofunnar.

Í dag er 3. júlí. Ráðuneytið birti ranglega orðið „eftirlýst“ hinn 18. júní. Hvers vegna hefur þetta mál Evelyn Glory Joseph legið rúmar tvær vikur í þagnargildi? Hvers vegna verður það nú aðalfrétt ríkisútvarpsins?