3.7.2014

Kenneth East - minning

Minningarorð í Morgunblaðinu


Látinn er í Copse Cottage í Heath, skammt frá Southampton á Englandi, Kenneth East (f. 9. maí 1921) sem nýlega fagnaði 93 ára afmæli sínu þar með fimm börnum sínum, barnabörnum og einu barnabarnabarni.

Kenneth East var sendiherra Breta á Íslandi árin 1975 til 1981 þegar hann lét af störfum í bresku utanríkisþjónustunni í samræmi við eftirlaunaaldur hennar. Bjó hann eftir það á Englandi. Kenndi hann í nokkur ár á námskeiðum breska utanríkisráðuneytisins en helgaði sig að mestu garðrækt og bóklestri að heimili sínu í Copse Cottage þar sem hann dvaldist löngum einn þrátt fyrir áeggjan barna sinna um að búa við þægilegri aðstæður. Þar vildi hann kveðja þennan heim sem hann gerði föstudaginn 20. júní sl.

Kenneth eignaðist fjölda vina árin sem hann dvaldist hér á landi eftir að hafa meðal annars verið í Sri Lanka og Nígeríu auk fleiri landa í þjónustu þjóðar sinnar. Ræktaði hann tengsl við íslenska vini sína allt fram undir andlátið með bréfum og símtölum. Á meðan heilsa leyfði lagði hann einnig oft leið sína hingað til lands. Öllum vinum sínum var hann aufúsugestur. Hann hafði áhuga á fögrum listum, tónlist og bókmenntum og þýddi meðal annars ljóð úr íslensku á ensku eða orkti sjálfur ef svo bar undir.

Við Kenneth kynntumst vegna síðasta þorskastríðsins en ég starfaði í forsætisráðuneytinu sem skrifstofustjóri þegar hann kom hingað. Ræddum við þá oft viðkvæm málefni og vorum meðal annars saman úti í London í ársbyrjun 1976 þegar Geir Hallgrímsson forsætisráðherra fór þangað í því skyni að reyna að semja við Harold Wilson, forsætisráðherra Breta.

Deilan leystist ekki á fundunum í London og fór svo að hinn 19. febrúar 1976 var ákveðið að slíta stjórnmálasambandi við Breta og boðað að Kenneth East sendiherra skyldi hverfa af landi brott þriðjudaginn 24. febrúar. Þá var hins vegar skollið á flugfreyjuverkfall sem leystist ekki fyrr en sunnudaginn 29. febrúar og komst sendiherrann brottrekni ekki úr landi fyrr en mánudaginn 1. mars. Minnist ég þess að Kenneth vissi ekki almennilega hvað hann ætti af sér að gera þessa daga sem hann neyddist óvelkominn til að dveljast í landinu vegna verkfallsins. Hann þáði þó málsverð heima hjá okkur Rut kvöldið áður en flug hófst að nýju.

Við svo búið hvarf hann til starfa í utanríkisráðuneytinu í London og efa ég ekki að hann átti ríkan þátt í sinnaskiptum Breta sem leiddu til samninganna um 200 mílurnar í Ósló  2. júní 1976. Hann sneri aftur til Íslands 8. júní 1976 og fagnaði í samtali við Morgunblaðið að vera kominn að nýju til Reykjavíkur. Lagði hann sig mjög fram um að græða öll sár sem höfðu myndast vegna síðasta þorskastríðs okkar og Breta og hins eina sem leiddi til slita á stjórnmálasambandi. Minnist ég margra ánægjulegra gönguferða okkar á fjöll hér í nágrenni Reykjavíkur á árunum sem síðan fóru í hönd.

Í spjalli okkar sagði Kenneth mér meðal annars frá þeirri sérvisku föður síns að vilja endilega dveljast einn á tíræðisaldri í húsi sínu, Copse Cottage, og ekki þiggja neina aðstoð sinna nánustu. Síðar heimsótti ég Kenneth á þennan sama stað og skildi vel að þeir sem hafa ánægju af garðrækt, fögrum blómum, eigin ávöxtum og grænmeti kysu að dveljast í kyrrð og ró á þessum stað, á eigin landi við skógarjaðar en þó ekki fjarri mannabyggð.

Blessuð sé minning Kenneths Easts.