5.7.2014 23:55

Laugardagur 05. 07. 14

Fyrir áhugamenn um frönsk stjórnmál er ævintýranlegur tími núna þegar allt er á öðrum endanum vegna ásakana á hendur Nicolas Sarkozy, fyrrv. Frakklandsforseta. Þær eru einsdæmi í sögu V. franska lýðveldisins sem Charles de Gaulle, hershöfðingi og fyrsti forseti þess, kom á áfót 1958. Margt hefur á daga forseta V. lýðveldisins drifið en enginn þeirra hefur verið settur í gæsluvarðhald eins og Sarkozy sem hefur nú stöðu grunaðs manns en segir rannsóknardómarana stunda pólitískar ofsóknir.,

Niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sýna að 65% Frakka vilja Sarkozy ekki aftur sem forseta þótt 70% telji líklegt að hann bjóði sig fram að nýju. 

Fréttir í blöðum og fjölmiðlum utan Frakklands um tilefni rannsóknarinnar á Sarkozy eru ruglingslegar svo að ekki sé meira sagt. Það er hvorki á allra færi að átta sig í myrkviðum franska stjórnmála- og réttarkerfisins né að hafa sýn yfir öll sakamálin sem tengjast Sarkozy á einn eða annan hátt.

Sarkozy er laus allra mála vegna ásakana um að hafa þegið ólögmætan kosningastyrk frá Lilian Bettencourt, auðugustu konu Frakklands. Hann er ekki lengur til rannsóknar vegna ásakana um kosningastyrk til hans frá Muammar Gaddafi, einræðisherra í Líbíu. Við rannsókn á Gaddafi-málinu komst lögreglan hins vegar að því fyrir tilviljun við hlustun á hleruðum símtölum að Sarkozy og lögfræðingur hans virtust í leynisamskiptum við hæstaréttardómara sem var að fara á eftirlaun en vildi fá vellaunaðan bitling í Mónakó.

Lögfræðingur Sarkozys bað hæstaréttardómarann að sjá til þess að dagbækur Sarkozys sem voru gerðar upptækar í Gaddafi-málinu féllu ekki í hendur þeirra sem rannsökuðu hvernig Bernard Tapie, kaupsýslumaður og stjórnmálamaður, samdi við ríkið um uppgjör í mörg hundruð milljóna evru skuldamáli. Grunur er um að hann hafi notið ólöglegrar pólitískrar fyrirgreiðslu undir forystu Sarkozys. Lögfræðingnum varð ekki að ósk sinni, hæstaréttardómarinn fékki ekki bitlinginn í Mónakó.

Helstu stuðningsmenn Sarkozys efast ekki um að hann sé ofsóttur til að hindra að hann bjóði sig fram til forseta 2017. Fremsti málsvari forsetans fyrrverandi er Brice Hortefeux. Hann var vara-innanríkisráðherra Sarkozys 26. apríl 2006 þegar við Tómas Ingi Olrich, þáv. sendiherra, hittum hann í skrifstofu hans í París. Fundurinn er okkur öllum ógleymanlegur því að starfsmenn ráðuneytisins höfðu ruglast á norska og íslenska fánanum sem átti að vera að baki okkar við myndatöku.