18.7.2014 22:50

Föstudagur 18. 07. 14

Við kvöddum hið ágæta gistiheimili Lyngholt í Þórshöfn í sól og blíðu í morgun og ókum um Raufarhöfn út á Melrakkasléttu. Sjá hér.

Skammt fyrir ofan Raufarhöfn rís Heimskautagerði í anda norrænnar goðafræði. Klettarnir sem hoggnir eru í gerðið eru margir risavaxnir. Verkinu er ekki lokið en fullbúið verður það eitt af undrunum sem rekja má til Snorra Sturlusonar. Sjá hér

Víða varð að aka varlega um sléttuna til að drepa ekki lítt fleyga kríuunga sem stóðu á veginum. Þessu höfðum við áður kynnst við Höfn í Hornafirði og á leiðinni út á Langanes. Gripu ungarnir ekki nægilega fjótt við sér kom mamman á vettvang og rak þá af stað.

Við skoðuðum Dettifoss að austanverðu en hinar hefðbundnu myndir af honum eru teknar úr þeirri átt. Vegurinn austan við fossinn er sumstaðar grófur en greiðfarinn. Kemur á óvart að engar leiðbeiningar eru um hvert vegurinn liggur þegar komið er frá fossinum. Vegurinn að vestanverðu er bundinn slitlagi og mátti sjá hópa ferðamanna bæði austan og vestan við fossinn.

Vegamerkingar (eða skortur á þeim) á þessum slóðum komu á óvart. Í stað þess að nefna 30 km hraða var á skilti bent á 35 km hraða og á öðru á 45 km hraða. Víða er viðvörun með 200 m fyrirvara um að hestar og menn kunni að verða í vegi manns. Á einu skilti er talað um 240 m. Hvað veldur?

Það kom skúr þegar við gengum um bryggjuna í Húsavík þar sem fólk beið í röðum eftir að komast í hvalaskoðunarferðir. Rigningin jókst eftir því sem nær dró Akureyri. Gufustrókurinn af heita vatninu úr Vaðlaheiðargöngum fer ekki fram hjá neinum og ekki heldur hraukurinn risastóri með efni í göngunum.