30.7.2014 20:00

Miðvikudagur 30. 07. 14

Enn meira var lagt undir við rannsókn „lekamálsins“ í dag þegar umboðsmaður alþingis ritaði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra bréf til að afla sér vitneskju um samtöl hennar við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Fylgdi umboðsmaður þar eftir skrifum í DV undir ritstjórn Reynis Traustasonar.

Þegar umboðsmaður tekur að sér að kanna mál innan stjórnsýslunnar lítur hann til allra átta. Ríkissaksóknara hefur í áranna rás ekki endilega þótt sæma að umboðsmaður legði mat á gjörðir sínar en hefur samt orðið að una því eins og aðrir. Í þessu máli hlýtur umboðsmaður að kynna sér feril rannsóknarinnar og umfang hennar ekki síður en hlut ráðherrans.

Spurning er hvernig því var lekið til DV að Hanna Birna Kristjánsdóttir hefði hagað sér á þann veg gagnvart Stefáni Eiríkssyni sem blaðið lýsti þriðjudaginn 29. júlí. Að rannsaka þann leka er áhugavert því að hann snertir rannsakendurna sjálfa – eða hvað?

Að enn einn opinberi aðilinn láti „lekamálið“ sig varða kallar enn á að almenningur sé af opinberri hálfu upplýstur um allan gang málsins, allt frá því að fyrstu ábendingu var komið til lögmannsins sem kærði og fram á þennan dag.

Þegar ríkissaksóknari fól lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu að rannsaka málið var lögreglan með rannsókn þess á sínum vegum á lokastigi. Hvað olli því að ríkissaksóknari óskaði eftir sérstakri rannsókn í sínu nafni? Þeirri rannsókn er nú lokið, ríkissaksóknari dregur að skýra frá ákvörðun sem á henni er reist. Hvers vegna?

Að baki kærunni í upphafi bjó ekki aðeins umhyggja fyrir hælisleitanda heldur einnig vilji til að ala á tortryggni í garð yfirvalda sem sinna útlendingamálum og þar með innanríkisráðuneytinu og innanríkisráðherra. Bestu sönnunina um þann tilgang málsins fá menn með því að lesa um það í DV.