29.7.2014 22:15

Þriðjudagur 29. 07. 14

Eftir að hafa fylgst með Reyni Traustasyni, ritstjóra DV, árum saman sem blaðamanni og grandskoðað aðferðir hans á Baugsmiðlunum í þjónustu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar er auðvelt að greina gamalkunna takta í skrifum Reynis og blaðamanna hans í „lekamálinu“ svonefnda sem þeir hafa haldið vakandi mánuðum saman. Þeir félagar fullyrða að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hætti störfum vegna undirliggjandi hótana og ítrekaðra afskipta Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra af störfum lögreglunnar.

Þegar í ljós kemur að þessari fullyrðingu er hafnað segir Reynir Traustason við Eyjuna:

„Það er engu haggað. Það er bara orðaleikur hvort Stefán hafi hætt beinlínis út af þessu eða hvort annað hafi vegið þyngra. Það skiptir ekki máli í þessu samhengi.“

Þetta segir ritstjóri blaðsins sem snýr út úr orðum fólks til að sanna gælumál sín eða les á milli línanna til að fá efni í fréttir. Hann lærði einnig af Jóni Ásgeiri að hóta þeim málsókn sem hann vill að þegi.

Líkindin við blaðamennskuna í Baugsmálinu minnka ekki við að Illugi Jökulsson tekur að sér að sannfæra lesendur sína um að Reynir og hans menn hafi rétt fyrir sér með getsökum sínum.

Þeir félagar á DV taka sér einnig fyrir hendur að gera tortyggilegt að innanríkisráðherra skipaði Sigríði Björk Guðjónsdóttur til að taka við af Stefáni á höfuðborgarsvæðinu. Þeir láta í veðri vaka að ég sé á bakvið það af því að ég skipaði hana lögreglustjóra á Suðurnesjum þegar Jóhann Benediktsson ákvað að sækja ekki um stöðuna eftir að ég auglýsti hana við gjörbreytingu á embættinu árið 2008.

Það er ekkert lát á samsæriskenningunum hjá Reyni Traustasyni, nú frekar en fyrri daginn.