2.7.2014 19:32

Miðvikudagur 02. 07. 14

Í dag ræddi ég við Tómas H. Heiðar, nýkjörinn dómara við Hafréttardómstól Sameinuðu þjóðanna í Hamborg, í þætti mínum á ÍNN  og má sjá samtal okkar klukkan 20.00 í kvöld og síðan á tveggja tíma fresti til klukkan 18.00 á morgun.

Þar kemur margt fram sem varðar brýna þjóðarhagsmuni og árétting á nauðsyn þess að fast sé staðið að skýrum sjónarmiðum í viðræðum við aðrar þjóðir og ekki síst við Evrópusambandið um rétt okkar í krafti hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ekki sé forsvaranlegt að nálgast málið á þann veg að niðurstaðan ráðist af samningi sem nauðsynlegt sé að fá til að þjóðin geti sagt af eða á um hann.

Á ruv.is má lesa í dag:

„Sigrún [Magnúsdóttir, þingflokksformaður framsóknar] segist [...] vilja segja að hún „sakni fjölmiðils sem skilji Framsóknarfólk og stefnu þeirra.“ „Mér finnst alltaf vera mjög tortryggt allt sem Framsóknarmenn leggja til og tala um og snúið út úr því á alla enda og kanta. Við vitum náttúrlega að Fréttablaðið er mest fyrir Samfylkinguna og Bjarta framtíð. Það væri gott fyrir okkur Framsóknarmenn að eiga okkar Fréttablað. Ég bara svona nefni þetta.“ 

Ekki skal gert lítið úr þörfinni fyrir blað sem skilur framsóknarfólk. Síðast var það misskilið þegar lóð undir mosku var til umræðu fyrir borgarstjórnarkosningarnar. Misskilningurinn tryggði flokknum tvo borgarfulltrúa eftir baráttu í örskamman tíma. Sumir kynnu að álíta að skilningur á framsóknarfólki dragi úr fylgi við flokk þess.

Óli Björn Kárason, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, skrifar reglulega greinar um stjórnmál í Morgunblaðið. Allar eru þær vel ígrundaðar og rökfastar eins og sú sem birtist í blaðinu í dag og má lesa hér.